fimmtudagur, mars 31, 2005

fetish?

þetta páskafrí mitt er fyrsta fríið sem mér hefur tekist að hafa röð og reglu í töskunni góðu nánast allan tímann. Er sífellt að re-packa og hafa þetta sem aðgengilegast, alltaf! Voða skemmtilegt bara. Líf vegbúans hentar mér vel þegar ég vil það. Þegar ég vel það:) Ég hef valið að lifa því lífa meira og minna næstu 2 árin, eða þangað til ég útskrifast úr KaosPilotskólanum.

Dagurinn í dag hefur einmitt verið í beinni útsendingu frá KaosPilot..til mín sko. Ekki í sjónvarpi. En frá því klukkan 7 í morgun hef ég tekið þau mörg símtölin þaðan og einnig hringt þau nokkur sjálf. Í Íslandssýki minni tókst mér að missa af mikilvægum degi. En því var reddað að með því að varpa honum nánast live yfir til Íslands. ANsKotans dúLLur eru þeTTa ha??

Dagskráin framundan þéttskipuð held ég bara og mikið er erfitt að sigta og púsla þessu saman...

miðvikudagur, mars 30, 2005

Uslagjöld eru sjaldan greidd tvisvar

var málshátturinn minn. Við fjölskyldan lékum þá fyrir hvort annað í ár. Mér gekk nú ekkert sérstaklega vel að leika minn. En annars hafði ég það bara ósköp gott yfir hátíðarnar. Á páskadagskvöld var ég búin að vera hér í 9 daga og var að djamma í 6.skiptið síðan ég kom heim. Er þetta kannski ekkert eðlilegt?

Ég er búin að hitta marga skemmtilega vini mína, sumum tókst að koma nýjum einstaklingum í heiminn síðan ég sá þá síðast. En yfirleitt einkennast frí mín hérna af kapphlaupi við tímann og er það að verða mér augljóst að ég þarf að læra að njóta mín betur hérna í þessu kapphlaupi.

En ég hlakka óskaplega mikið til að fara aftur út því þar bíða mín og Team 11 spennandi verkefni. Svo sýnist mér að vorið sé komið í Danmörku. Allavega er það komið hér. Á svona dögum finnst mér ég geta sigrað heiminn! Svona þar sem er ekkert veður, milt og logn...en samt getum við búist við öllu:)

föstudagur, mars 25, 2005

Kæri Bobby, velkomin heim...

já í dag er Bobby dagurinn og höfum við Harpa haldið hann hátíðlegan með því að taka þátt í spurningakeppni á Rás2, æft okkur í táleikfimi (þjálfað tærnar í að taka hluti á stofuborðinu sumsé) borðað á Pizza Hut með Möttu og Hlé, stundað pottasetu í troðfullri Vesturbæjarlaug og rúntað um bæinn í leit að jarðaberjum og klökum, en í kvöld á að þrykkja í Bobbykokteila í tilefni dagsins.

Á meðan við höfum áorkað þetta hefur Bobby okkar farið í göngutúr, borðað skyr, rakað sig og farið á blaðamannafund. Við vitum ekki hvað hann ætlar að gera í kvöld og finnst fjölmiðlar engan veginn gefa þessu nóga mikla athygli. En auðvitað ættu að vera fleiri aukafréttatímar í beinni útsendingu, halló Bobby gæti jafnvel prumpað í sturtu og við fáum ekkert að vita neitt!!! öss! Maður ætti kannski að slá á þráðinn hjá Palla Stöð2, því það er víst maðurinn með slúbbið þessa dagana.

En þangað til að við fáum næstu fréttir af íslandsvininum og skyráhugamanninum Bobby (sem ætlar aldrei að tefla á ný) verður sett á sig gloss og dillað rassinum á skemmtistöðum Reykjavíkurborgar. Ef ég verð mjög heppin þá kemst ég kannski að leyndarmálinu um Benoný og Benjamín í laginu Draumaprinsinn með Röggu Gísla. En það er mér algjerlega óskiljanlegt afhverju þeir eru tveir....

miðvikudagur, mars 23, 2005

sma blogg

Sit þessa stundina í Bifrastarsveitinni hennar Maj-Brittar minnar.Var að vakna. Þetta er yndislegt, alveg yndislegt að komast aðeins út fyrir glamúrinn og rykið inní borginni. Í gær fórum við í sund og tókum nokkrar ferðir í vatnsrennibrautinni í sundlaug Borgarness og mikið vildi ég óska að ég ætti eina slíka til að byrja alla daga á að skella mér í. Skríkti alveg af gleði!

Síðan á föstudaginn er búið að vera mestmegnis bara fínt. Búin að reyna að hitta alla og njóta þess nógu asskoti vel að vera hérna á Íslandi. Verst hvað tíminn líður alltaf hratt! Á eftir fer ég svo með Perlunum mínum í göngu og sund og svo verður grillað og sungið í SingStar og þemað er blóm! Kannski maður þrykki í einn ÞRO-HOSKA?

Síðar smjíðar...

föstudagur, mars 18, 2005

Dagurinn í gær var mjög langur en var samt sem áður einn sá besti. Allavega byrjaði hann vonum framar. En ég kynnti verkefnið mitt fyrir svona Idol dómnefnd, 2 gæjar og 1 kona í miðjunni. Kynningin gekk svo vel að það voru fagnaðarlæti í miðjum lestri og klapp og húrra eftir á. Þessu bjóst ég sko ekki við og kallaði það fram gleðitár að athöfn lokinni.
Svo hélt ég með skólastjóranum mínum til Köben að halda fyrirlestur um skólann og var það rosa stuð. Fínn gæji hann Uffe sko!

Til að toppa daginn skellti stúlkan sér svo bara uppí flugvél með Herborgu og Bjössa og lá leiðin norður til Íslands. Ferðin tók um 4 tíma og gekk þetta svona uppá niður og kynntum við Herborg starf Flugdólgsins mjög vel. hahahhaha... En samt ekki upphátt.

Í dag er G-dagurinn haldinn gleðilegur hjá HÁS. Árshátiðin hefur verið í höndum mínum sl. daga og er ég nú að leggja lokahönd á þetta. Að sjálfsögðu er ég klædd í Græn föt og Gallajakka með Gult ennisband. Og í kvöld verð ég með Gloss, Glimmer, Gyllt Glingur og eins og alltaf er ég mjög Glamórúss Gyðja.

Nánar seinna:)

þriðjudagur, mars 15, 2005

Im coming, Im coming up...

vei vei jibby cola smjola! verkefnið mitt er farið frá mér. Mómentið sem ýtt var á send takkann var meira að segja tekið upp á filmu af danska sjónvarpinu....svo merkilegt var það:) Fjölmiðlar hafa óendanlega mikinn áhuga á okkur hérna í KaosPilot, ji sem er auðvitað bara smart? ha *á innsogi...*
Núna þarf ég bara að búa til kynningu á viðskiptahugmyndinni minni og svo er það íslandið, bezta í heimi.

mánudagur, mars 14, 2005

ok hjukk....

...ég var næstum því búin að gleyma því hvernig það er að vera ljóshærð en sem betur fer er rótin orðin svo löng að ég bara gæti ekki gleymt því hvernig ljósu lokkarnir taka sig út. Í hvert sinn sem ég lít í spegil glóir þetta og ég heyri næstum því svona glói-hljóð. Svona eins og þegar THX merkið kemur í bíó. Svo er líka mjög gaman að sjá hvernig ég tæki mig út með skallabletti, hefur einmitt alltaf langað það svo heitt.

Æ en á morgun ætlar Matta að koma að lita yfir rótina.... Leiðinlegt. Hræðilegt alveg að hætta að sjá glóann og skallana.

En ég fæ þó að njóta glæra augnabrúnalubbans alveg fram á föstudag. Hjúkkett sko!! Væri hræðilegt að þurfa lita yfir rótina og fara í lit og plokk sama dag.

Stundum get ég bara ekki gert upp við mig hvort það er gott að vera kona eða ekki??? Því nú bíður mín ferðataska undir rúmi og fullur fataskápur af fötum sem aldrei eru notuð, jú nema þegar þau eru ekki í sama landi og ég....aaaah já þá vantar mig þau alltaf mest!

sunnudagur, mars 13, 2005

Jamm og Ju, jamm og jamm og ju....

stúlkan stóðst ekki mátið og datt í það á föstudaginn þrátt fyrir nördaskap og kellingavæl. Fannst svo dapurlegt að hanga heima á meðan landinn fagnaði nýrri Idolstjörnu og fór á Hot Chip. Einnig vil ég koma því á framfæri að ég er mjög sátt við úrslit Idol Stjörnuleitar. Hefði verið jafn sátt með hina líka. Fór með hvítvínsflösku sem ég keypti í LasVegas sjoppunni í Fredriksberg hverfinu til Kristinar (fyrrum hermanni) og fór á telputrúnó og svo í partý sem varð allt í eina að boxkeppni. Tveimur dýnum var komið fyrir á miðju gólfi og 2 pör af boxhönskum dregnir upp. Stelpur á móti strákum, Eye of a Tiger í botn, dómari og ljósmyndari. Stelpurnar rústuðu þessu. Hinsvegar tók ég ekki þátt því ég var með óstöðvandi munnræpu út í horni. AnsskottasVesen!

Sara tók svo lestina frá fæðingabæ HC Andersen um hádegisbilið og við fórum í bæjarrölt, svo heim að elda (ég er óstöðvandi í eldhúsinu þessa dagana). Ásamt mér og Serah, voru Matta feita og Guðný koddníshetja í kertaljósa dinnerinum. Að loknum kvöldverði var svo Matthildur komin og 3 íslenskir Idolsþættir voru teknir ásamt ís, kók, snakki, toblerone. Með endæmum huggulegt kvöld í alla staði. Góð birta og gott fólk.

Núna er ég komin í skólann, heima á íslandi eru vinkonur mínar nýkomnar úr eftirpartýi með spennustrákum og æskuvinum. Á leiðinni í sund í þokkabót. Svona fréttir kalla á óbilandi tilhlökkun heimferðar. Sem er eftir 4 daga og þessa 4 daga hef ég nóg fyrir stafni. Enda deadline að nálgast og ég sé ekki hvernig ég fer að því að klára. Sérstaklega þegar ég legg svona mikinn metnað í blogg og msn. En svona dugnaður skilar sér, því ég er sigurvegari Bloggkeppninar á síðunni hennar Hröbbu handboltakonu (en lítill fugl hvíslaði að mér að hún væri best á íslandi...og ég þekki hana hahahah vúúú!!)

Jæja ég ætla að halda áfram að gera viðskiptaáætlun fyrir nýja fyrirtækið mitt. Rúlla þessu upp...

föstudagur, mars 11, 2005

dilja the nerd...

....þessa stundina sit ég hérna ein með tölvunni uppá annari hæð í skólanum. úti eru allir að fá sér bjór og músík í botn. en nei diljá er að vinna í verkefninu sínu. læt eins og fimmtug bitur kelling og bíð eftir að þau fara í næsta partý. búin að setja á mig headphone svo ég heyri ekki í þessum hávaðalátunum. en þetta er erfitt...
en ég verð ánægðari þegar ég er búin með verkefnið mitt. þá fer ég líka heim til íslands og þá skal ég sýna þeim hver kann að djammah!!

go dídí go!!

fimmtudagur, mars 10, 2005

Samkvæmt þjóðskrá eru:109 sem bera nafnið Diljá sem 1. eiginnafn

Þegar ég var yngri var minn heitasti draumur að heita Ingibjörg eða Erla. Mér fannst hræðilegt að mamma mín og pabbi hafi gerst svo flippuð að skíra mig nafni sem endar á JÁ. Strákarnir í bekknum mínum kölluðu mig Dil-NEI eða Dil-ÉG ER EKKI VISS. Reyndar var fyrsta nafna uppástungan þeirra ekki samþykkt af prestinum, þannig að Diljá er bara fine and dandy...

Fyrir utan það að vilja heita "venjulegu" nafni langaði mig líka að heima væri leðursófasett, hillusamstæða og glerborð. Já og svona hornborð með fallegum lampa á, já og kannski mynd af mér, tekin í stúíó Lárusar, með svona gráum svampamáluðum bakgrunni. EN nei, við fluttum einu sinni á ári; ég hef búið í minnstu íbúðinni á Lindargötu (sem er vart lengur til) og í villu á Seltjarnarnesi. Aldrei sami stíll. Aldrei "american dream" stíllinn minn...

Mig langaði líka að mamma myndi elda læri á sunnudögum, fisk á mánudögum og kjötbollur á þriðjudögum.....En yfirleitt var eitthvað nýstárlegt á boðstólnum. Hlutir eins og ChiliConCarne (þetta var ´88) eða TagliatelleSpínatPasta var það sem ég fékk á borðið. Og svo var notuð light salat dressing í staðinn fyrir smjör á brauð. Svo var mikið farið bara út að borða.


Í dag er ég loksins byrjuð að fíla nafnið mitt, og hvað sé ég þá??? 109 kvenkyns verur á íslandi heita því dýrðarinnar nafni!!! og ekki nóg með það: það eru 85 sem bera það sem 2.eiginnafn.
Við Diljá-unnar erum að nálgast 200stk!!!!

daagblaaaðið viisiiiir

ég hef lagt það í vana minn að renna yfir mbl.is og visir.is á hverjum degi. Finnst gott að fylgjast með því hvað er að gerast heima og bara í heiminum. Það er eitt sem fer alveg óskaplega í taugarnar á forvitna hrútnum mér! Það er að á visir.is er bara hægt að sjá forsíðu DV! Geri mér fulla grein fyrir því að það er ekki í tízku að segjast fíla þennan ómálefnalega ósóma sem þetta blað inniheldur. En sama er mér: Ég elska þetta blað! Djú-húsí greinar og leyndarmál á hverri síðu. Það er sko alveg minn tebolli!

host host

ef ég fæ ekki ofur seggshy 6 pack eftir þetta endalausa hóstastríð sl. nætur þá er ég illasvikin. Ég held varla haus lengur af þreytu.

Fyrir þá sem taka vel eftir að þá: Já ég var að uppgvöta það að ég get gert titla hérna að ofan og finnst það mjög skemmtilegt. Enda alltaf að fatta betur og betur að það eru litlu hlutirnir í lífinu sem gera það meira virði og einfaldlega skemmtilegra.

miðvikudagur, mars 09, 2005

ó its djöst ei pörfekt dei...

...mér finnst svo frábært þegar ég næ að grípa svona gleðiaugnablik á meðan það er í gangi. átti einmitt eitt svoleiðis áðan.
sólin er byrjuð að verma okkur kaospilotana og í hvert sinn sem tækifæri gefst förum við út á risastórar svalir sem eru hérna í skólanum. í hádeginu áðan settum við góða tónlist á og flestir lágu bara á víð og dreif um svalirnar. Svo kom Lou Reed og söng fyrir okkur lagið um fullkomna daginn og þegar viðlagið kom tókum við öll undir. og ó hvað þetta var undursamlega fallegt augnablik, ég fékk alveg gæsahúð og næstum því tár í augun af gleði. já ég er væmin og er stolt af því.

en svo stóð ég upp og tók dansinn, sem ég tengi yfirleitt við Loftkastalann, og kenndi krökkunum. sló í gegn stúlkan, það get ég sagt ykkur. og það er ekki væmið!


svo eftir líkamsæfingatímann áðan sagði einn bekkjarbróðir minn snilldar, jafnframt sanna, setningu:

"team 11 is hornier than ever!"

þá vitið þið það!

þriðjudagur, mars 08, 2005

We're the lowest of the low. The scum of the fucking Earth!

Braut áfengisbindindið mitt í kvöld. Okkur stelpunum var boðið uppá kampavín, ferskan ananas og flotta stelputónlist niðrí sal út af konudeginum. En það er allt í lagi. Svo lengi sem það er ekki bjór og fyllerí er í lagi að brjóta bindindið.
Fór snemma heim, ætla snemma að sofa og ætla að vera mætt fyrir 9 á morgun. Er búin að mæta seint marga daga í röð, enda búin að fara afskaplega seint að sofa undanfarið. Svo er svona leiklistarskólaprógram í fyrramálið. Þannig að það er fínt að vera ferskur í æfingarnar og dansinn...eða hvað sem verður látið okkur gera;)

Núna er ég að horfa á Trainspotting, og e-a hluta vegna hef ég aldrei tekið eftir því hversu góð kvikmyndatakan er í þessari mynd. Hvert skot er eins og útpæld ljósmynd seld sem listaverk. Þegar Trainspotting var sýnt í Loftkastalanum settum við CocoaPuffs í klósettið til að búa til ræpuna.

Þegar ég verð stór þá ætla ég að giftast Ewan McGregor.

ps. 9 dagar í heimkomu
pps. Enn hefur enginn svarað atvinnuemailum.

....internationella kvinnodagen!

Ó en gaman! Heill dagur ætlaður okkur stelpunum og hann er í dag. Ég held að hann sé til að minna okkur, og hina(hmm hverjir ætli það séu?), á að við erum ennþá að berjast fyrir jafnrétti og viljum betri lífskjör. V-dagurinn, sem er líka í dag, minnir okkur á að það verði að stöðva þetta ofbeldi sem okkur er sýnt.

Brettið upp ermar stelpur! Farið í rauða sokka og setjið svo á ykkur gloss! Þegið svo í smástund og hugleiðið svo hverju þið viljið breyta. Næsta skref er svo að hugleiða hvernig sé hægt að breyta því. Því eins og við vitum öll... ER ALLT HÆGT!
Svo bara sendið þið mér mail á: diljaa@kaospilot.dk, og ég plögga þetta;)

En ég er búin að ákveða hverju ég vil breyta(fyrst þeas):
1) Nauðgunum. Nei ég vil ekki breyta þeim. Heldur að sjálfsögðu bara láta þær hætta.
2) Að feitir strákar hætti að eiga meiri séns en feitar stelpur! Sérstaklega svona hobbitar...

mánudagur, mars 07, 2005

Við Hege meðleigjandinn minn erum að mynda mjög skemmtilegt og þægilegt heimilshald saman. Erum alltaf svo sammála og bara í takt í tilverunni. Eins og ég sagði hér um daginn er ég að finna e-r húsmóðursgen í mér þessa dagana og ég er ekki frá því að hún sé að uppgvöta nýjar hliðar í sér líka.

Til að mynda þegar ég kom heim í gær var hún búin að þrífa allt hátt og lágt hérna heima. Ajax ilmurinn tók á móti mér. Hins vegar í dag tók gulrótarkökuilmur á móti mér. Var mín þá ekki að baka þá ALLRA bestu gulrótarköku sem ég hef smakkað. Svo skemmtilega vill til að hún er svona heilsukaka líka! Ég tók mig þá til og eldaði fyrir okkur engifer kókos grænmetissúpu sem er delissjöss!

Mikið óskaplega er gaman að vera í helþílífinu ... Endilega sendið mér e-ar uppskriftir ef þið eigið!
Æ svona þreyttum mánudagsmorgni get ég ekki annað sagt að ég sé með einhverskonar heimþrá. Samt líka svona fortíðarþrá. Er búin að vera hlusta a lög sem minna mig á gamla tíma. Langar að vera að vinna í Loftkastalanum og djamma allar helgar með þeim eða stelpunum. Vera með falsað skílríki og fara á Nellys og dansa við Ladda syngja um Súperman. Halda hæfileikakeppni á Kaffibarnum þar sem ég er eini keppandinn (og tapa hahhah). Taka með mér bjór í risaKókglösum heim eftir vinnu og fara á kojufyllerí með Svanhvíti. Fá fyllerísfullnægingu í gítarpartýi í Þórsmörk. Vakna upp í Loftkastalanum á Sunnnudagsmorgni þegar leikara barnasýningar eru að mæta til vinnu.

Æ langar bara að vera í ruglinu heima núna. Hlakka mjög mikið til að fara heim og lenda í ævintýrum. Meika ekki alveg viðskiptafræði í KaosPilots núna þessa stundina...
Er eðlilegt að fara út klukkan þrjú aðfaranótt mánudags til að kaupa heimsfrelsi til að geta talað í símann...lengur?? Við Harpa vorum þá þegar búnar að tala saman frá rúmlega 12. En hennar frelsi var búið og við gátum ekki hætt að tala.
Ég fékk smá reality check moment þegar ég gekk sæl heim frá seven eleven með nýju inneignina mína. Svona eins og ég væri með dópið mitt. Í gegnum tíðina hef ég held ég eytt mínum mestum símatíma við að tala við Hörpu. Við erum óstöðvandi. Ef við hefðum ekki þurft að vakna klukkan 7.30 í morgun þá værum við líkalegast ennþá að masa.

Við höfum stundum bara vakað heila nótt og talað og talað. Allt í einu bara komin morgun og við byrjaðar að flissa heldur mikið. En fliss hefur einmitt verið okkar trademark síðan á gelgjunni. Alveg óþolandi týpur oft á tímum...fyrir aðra.
Við getum rifjað upp sama atburðinn aftur og aftur og aftur og alltaf haft jafn gaman að. Sérstaklega finnst okkur skemmtilegt að hafa áheyrendur sem fá að heyra hvað við vorum bilaðar á gelgjunni. Einhver sjálfboðaliði?

Annars var dagurinn í gær bara svo frábær. Ég var í skólanum að vinna í 7 klukkutíma og það var frábær stemmning. Ég og sonur Guðs sátum með sítrónuengifervatn, kertaljós og góða músikk í góðum fíling...að þykjast vinna. Ég skipulagði árshátíð HÁSklúbbsins, sem er einmitt komin með blogg, sem og Perlurnar. Sjá hér til hægri. Alveg einstök klúbbastemmning hérna hjá kellingunni;)

sunnudagur, mars 06, 2005

Það má eiginlega segja að ég hafi verið á Íslandi í gærkvöldi. Það þurfti að fresta SushiKvöldinu. Silla hringdi í mig þegar ég stóð með fulla körfu af sjávarþangi og hráum fisk í Kvickly, og það kom smá uppá. Ég lagði bara kröfuna laumulega frá mér og gekk út. Fannst ég eins og glæpakvendi.

En já aftur að Íslandi. Ég heyrði nánast í öllum vinum mínum hvort sem það var í síma eða msn. Ég saknaði ykkar svooo. Og ef ég lít til baka var nú eins og ég hafi bara verið þarna;

Ég byrjaði kvöldið á að horfa á Gísla Martein í gegnum netið og kjafta við mömmu á meðan. Svo var lítill HÁS* mítingur online, HÁS árshátíð plönuð og fleira skeggrætt. Eftir að hafa kvatt stúlkurnar fór ég svo að passa með Kollu, jú líka online. Okkur fannst smá eins og við værum horfnar nokkur ár aftur í tímann. Voða sætt. Á meðan hringdi líka Harpa með skemmtilegar fréttir. Say no more. Svo hringdi ég í Maríu sem hafði það mjöööööög gott heima og var nokkuð ánægð með lífið. Til að toppa kvöldið hringndi ég svo í Brynhildi mína sem ég hef ekki heyrt í í margar vikur og var það svo sannarlega unnið upp með góóóóðu spjalli langt fram á nótt.

Nú er sunnudagsmorgunn og ég var að vakna. Ætla að fara að hita mér te, sjóða egg og fara svo í góða sturtu.
Deginum ætla ég svo að eyða í skólanum og vinna í stóra verkefninu mínu.

Lifið í lukku en ekki í krukku!

laugardagur, mars 05, 2005

Það er laugardagsmorgunn og klukkan er 8.52 og ég er vöknuð. Týpískt ég. Meira að segja fyrir löngu síðan. Hvar er þessi týpa á virkum dögum? Vona að ég nái að sofna á aftur. Er með svo mikið samviskubit því ég braut bjórbindindið mitt í gær. Fór í eitthvað útgáfupartý já e-um big moða fokkíng niggah dúdd á Den Sidste. Og þar var frír bar í klukkutíma. Þegar ég kom voru krakkarnir búnir að fylla (og er "fylla" understatement) borðið af bjór...og gin og tónik (og ég gæti alveg eins drukkið eyrnamerg útí sódastrímvatn). Já stúlkan var þyrst og það var að sjálfsögðu klukkutíma löng bið á barinn. "Ah fæ mér einn kaldann flöskubjór og fer svo í vatnið" hugsaði ég...

....og þeir urðu fleiri. Fimm ef út í það er farið.

En þeir hljóta hafa farið mér vel því 3 bekkjarbræður mínir sögðu að ég væri ein sú fallegasta kona sem þeir þekktu. Mér fannst ég nú ekkert sérlega glæsileg, í aaaðeins of háhæluðum skóm fyrir Diljá. Þeir sem mig þekkja vita alveg hvað ég er að tala um;) En maður verður samt að æfa sig. Sérstaklega þegar maður er svona mikil bjútí;) ha? *á-innsoginu*

En nú ætla ég að fara að lesa how2makeSushi bókina sem ég fann í eldhúsinu hérna heima hjá mér. Því í kvöld er SUSHIkvöld og ég hlakka svo til. Ég hlakka alltaf svo til...

föstudagur, mars 04, 2005

Já í dag er föstudagur og ég er ekki að fara á skíði en komin með kamerat þegar að því kemur. Og mikið hlakka ég til, alveg komin með harpsperrur strax af spenning.

Já í dag er föstudagur og ég er ekki að fara að detta í það. Samt sem áður er ég að fara í eitthvað afskaplega smart útgáfupartý með bekknum mínum. Hlakka til að vera með minnistöfluna og nudda skandölum framan í þau næstu vikurnar.

Já í dag er föstudagur og ég er ekki að fara að fljúga heim til Íslands. En það mun ég gera eftir 13 daga og fékk að vita áðan að ég verð með ferðafélaga. Og það ekki að verri sortinni sjáðu til.

Já í dag er föstudagur og ég er ekki að fara að borða neitt fitandi um helgina. Því ég er í megrun og mér gengur vel. Á morgun ætla ég að búa til Sushi í fyrsta skipti á ævinni minni.

Já í dag er föstudagur og það verður vonandi ekki brotist inn til okkar um helgina. Því í gær var skipt á skrám um alla bygginguna.

Já í dag er föstudagur og alla vikuna finnst mér eins og ég hafi verið föst í músikvideoi frá Sigurrós. Sem tekið hefur verið upp um sjóþungan vetur. Allt svo kyrrt og fallegt og fljótandi.

Já í dag er föstudagur en ekki einhver annar dagur. Það er 4 mars og ég, Diljá Ámundadóttir, er hamingjusöm, spennt og vongóð um að nákomin framtíð sé skemmtileg og full af ævintýrum. Enda með endæmum væmin ung kona á uppleið.
Ef ég mætti alveg ráða hvernig eg myndi eyða þessum degi sem nú var að hefjast þá myndi ég vera að fara á skíði. En þar sem það er víst ekki að fara að gerast að þá ákvað ég að athuga hvar skíðin mín séu staðsett á íslandi og nú vil ég hér með auglýsa eftir einhverjum sem kemur með mér í páskafríinu. Það er komin ný lyfta í Bláfjöllum og það væri gaman að prófa hana.

Hver kemur með???

fimmtudagur, mars 03, 2005

Nú er ég búin að hafa samband við 6 fyrirtæki vegna vinnu heima í sumar. Reyni að skrifa email, svona hress vs. ákveðinn vs. prófesjónal. Og sendi svo CV með.

Yfirleitt þekki ég e-ð til manneskjunnar sem ég er að skrifa til og mér finnst það nú eiga að auka á möguleikana.

MÉR HEFUR EKKI BORIST EITT SVAR!!!

Ohhh! ég er svo óþolinmóð að þetta er að fara með mig. Anda inn, anda út!

En ég veit að þetta reddast! Me is positive, jes jes...
úúúúú stúlkan er á 4.í helþí og nýja lífi. Og það gengur svona afskaplega vel. Húsmóðursgenin spretta stundum fram í mér og á góðum dögum fæ ég einfaldlega kikk út úr því að henda í vél, baka og elda eftir uppskriftum. Ég er á svona dögum núna og ég held að það stafi líka af því að ég er með svo gott eldhús og í því er allt sem manni vantar.
En mikið er dýrt og flókið að borða svona helþí! En ég læt mig hafa það, mér finnst ég grennast og svo er þetta einfaldlega smá sma-hart;)

Ásamt húsmóðursgenunum poppa líka upp mæðrahormónar í gríð og erg. Þegar maður les taktlausa og óréttláta bloggfærslu um besta vin sinn getur maður ekki gert annað en að taka upp hanskann og svarað fyrir hann af bestu getu. Í leiðinni spyr maður sig að því að hvar liggja nú mörkin á þessum blessaða frjálsa bloggvettfangi. Svo spyr maður sig að því hvernig fólk lítur á vináttuna í allri sinni dýrð. Er það eðlilegt að skrifa allt það sem um huga manns reikar á netið, þótt það sé samhengislaust og svertir mannorð vina sinna? Mér er spurn...

miðvikudagur, mars 02, 2005

Í dag er ég klædd í íslensku fánalitina, jú og svartan. Mamma klæddi mig oft í þessa liti þegar ég var yngri. OshKosh smekkbuxur og rauðan bol við svo dæmi sé tekið. Kannski það hafi haft áhrif á mig því í dag er ég mjög svo hrifin af fánanum okkar, þá í öllum sínum myndum. Hins vegar hef ég ekki lesið bókina um íslenska fánann, sem geymir reglur um hvernig fara á með hann. Læt verða að því bráðlega, því daglega fæ ég fleiri og fleiri hugmyndir um hvað mig langi til að gera við hann og nota hann í. Þessa elsku.

þriðjudagur, mars 01, 2005

OgAllirSyngjaSaman: Neeeveeer eeending stoooooooryyyy, aaaa aaaa aaaa.....!!!!

Nei þetta hressandi írana ævintýri er ekki alveg búið eins og hélt. Nú hafa 3 hlutir verið tilkynntir stolnir í byggingunni til viðbótar (2 myndavélar og ein iBook). Það sem er skuggalegasta við það, er að þetta hvarf allt eftir að hann Yousseff minn flutti út í gær. Tvær manneskjur hafa sagt að það hafi einhver komið inní íbúðina þeirra þegar þau voru heima, en þessi einhver hafi snúið við í dyrunum þegar hann varð var við að einhver væri heima við.

Á morgun verður skipt um alla lása og lykla í allri byggingunni og vonandi verður sett upp vídjósekjúrittísystem á ganginum. En dugir það? Ef þeir hafa komist inní nánast allar íbúðirnar, eru þeir þá ekki með einhver verkfæri til þess sem dugir á allt?
Við Hege erum búnar að setja 2 stóla fyrir hurðina frammi, einn úr stáli og einn úr þykkum við. Og saman eru þeir öflugir og halda hurðinni alveg fastri. Svo er bara málið að vera með allt þetta dýrmæta á sér þegar ég fer héðan út á morgnana.

Út í hvað er ég komin? Ég sem hélt að þetta væri búið. En kannski er þetta bara rétt að byrja...?
Iceland Express er nú að verða að smá skandal. Síðan ég flutti til Danmerkur að þá hefur Icelandair nánast undantekningarlaust verið með lægri fargjöld. Og þó að það muni ekki nema 1000-2000kr tekur maður það nú frekar því hjá Icelandair getur maður valið á milli 3ja tímasetninga og þar fær maður GÆÐAmáltíð og Moggann og teppi og kodda og ég held að það sé smá meira pláss þar. Þó lítið sé.
Svo er maður nú ennþá smá sár út í Express síðan þeir klúðruðu öllu upp í desember. Og svo eru þeir alltaf með seinkun.

Ég skora á Iceland Express að hefja aftur starfsemi á LÁGfargjöldum! Annars er ballið bara að verða búið hjá ykkur Express! Því skal ég lofa...