þriðjudagur, september 25, 2007

Gyðjur undir jökli


Næstu helgi tek ég mér húsmæðraorlof ásamt Maríu Rut og er ferðinni heitir í kvennaferð upp undir Snæfellsjökul, er það ekki örugglega besti staður landsins?
Þetta er nokkurskonar námskeið og gengur undir nafninu
Gyðjur og gleði-orkuhelgi fyrir konur undir jökli
Inniheldur tildæmis:
* dansjóga * orkudans * dans Gyðjunnar * jógaleikfimi / orkustöðvajöfnun * sund í ölkeldulaug / heitur pottur * gönguferðir / útivera * grænmetisfæði og hreinsun * hvíld og slökun
* hópsöngur * sögur * tími fyrir þig / kyrrð * meiri orka * útrás og umbreyting
* skemmtileg sjálfstyrking / hugrekki * að uppgötva Gyðjuna sína * náttúruleg fegurð / innri fegurð
* styrkjum kvenleika okkar / kvenorku * uppbyggilegar leiklistaræfingar * jákvæður máttur hugans
* tengjast betur innsæi þínu og flæði * himneskar ilmolíur
Sjá meira á www.pulsinn.is

Úff hvað þetta er innilega mikið ég! Asskotas vessjen á manni! :) Hlakka allavega alveg rosalega mikið til.

fimmtudagur, september 20, 2007

Velkomin elsku hásynja!

Mig langar til að óska nýju vinkonu minni velkomna í heiminn.
Hún er Maj-Brittar/Einarsdóttir Briem og mætti aðeins fyrir tímann, eða á föstudaginn 14.september kl.15.26 og vó hún þá 13,5 merkur og var 50cm á lengd.
Ég held að það eigi eftir að fara Maj-Britti minni mjög vel að eiga mey-ju. Eða stúlku í meyjarmerkinu.
Eruð þið að spá í því sama og ég? Ó já krúttmælar heims að springa. Obboooðsslleegah sæt, asssskoatssvessjen á þessari! :)

miðvikudagur, september 19, 2007

Nói sá að sér


Það var einhver sem hlustaði á bænir mínar og annara íhaldsamra fagurkera okkar Íslands. Nói hefur nú tekið ljóstustu transformuðu pakkningsbreytingum allra tíma til baka og útlit nánast komið í sama horf og það var áður. Núna vil ég bara litla pakka og bláan opal aftur. Þá er ég ánægð.

Eftirfarandi færslu skrifaði ég og birti hérna á blogspot.com fyrir tæpum tveimur árum, hluti af henni birtist svo í DV. Já já...

laugardagur, október 22, 2005

sykurlaus opal, truno og barnapössun

hver er ábyrgur fyrir því að koma með nýtt útlit á opal pakkana sykurlausu? ég er búin að kvíða þessu í nokkur ár, búin að kvíða því að það sé eitthver þarna úti með nógu mikil völd og nógu lélegan smekk, sem komi svona slysi á markaðinn.
en ég keypti mér samt einn. og sykurlausa appelsín í plasti.
í gær fór ég á trúnó með píparanum mínum og svo fór ég líka á trúnó með tveimur konum hjá Orkuveitunni. Sigrún í þjónustuverinu og Unni í innheimtudeildinni. Öll þrjú trúnóin áttu sér stað fyrir klukkan 12 á hádegi. Mér liggur stundum e-ð svo margt á hjarta.

þriðjudagur, september 18, 2007

Djoggandi í brjéttinu...

Matta vinkona sagði eitt áhugavert um daginn; henni fannst soldið fyndið þegar fólk bloggaði óbeint um mætingu sína í ræktina. Svona til að sýna öllum heiminum hvað það er duglegt að djogga og lyfta. Ég er sammála henni, en á hinn bóginn held ég líka að maður hafi einmitt svo mikinn tíma til að hugsa um hvað maður getur bloggað um á meðan maður er að púla í ræktinni. Hugurinn fer ósjaldan af stað, hvort sem það eru dagdraumar eða vangaveltur um eitthvað magnað sem lífið hefur uppá á bjóða. Allavega er ég búin að blogga fjöldan allan af færslum í huganum, í ræktinni. Finnst ég svo málefnaleg, sniðug og spennandi alltaf. En svo gleymi ég öllu um leið og ég geng út aftur.

Eitt af því sem ég man eftir að hafa "bloggað" um í ræktinni er að ég vildi óska að það væri algjerlega eðlilegur hlutur að syngja með tónlistinni sem maður hlustar á í iPodinum sínum. Fyrir mér skiptir það öllu máli hvað ég er að hlusta á, orkan/þolið kemur að stórum hluta til úr tónlistinni. En stundum er ég orðin svo hress að mig langar bara að taka undir og góla með.

En það er víst ekki málið þarna í Laugum, ég held að Arnari Grant og Sölva Kalóríukvóta finnist það "klárlega" ókúl.

Talandi um Sölva. Á morgun er komið eitt ár síðan að hann Sölvi Freyr kærasti minn mætti í heiminn. Þetta köllum við langtíma samband. ó já ó já!

fimmtudagur, september 13, 2007

Ætla ekki allir að koma á Airwaves 2007?

Ég verð þessi á barnum í frönskum með e-um bassaleikara.
Verð að vinna þangað til.
Sé ykkur þar dúllurnar mínar!

föstudagur, september 07, 2007

Í sjónvarpinu er þetta helst

Ég er ekki mikill sjónvarpssjúklingur en þó finnst mér mjög gott að hafa sjónvarpið á þegar ég er heima við. Sérstaklega fréttirnar, svona þegar ég er að stússast e-ð heima við. Þegar ég bjó sem unglingur í Hollandi saknaði ég þess til dæmis mikið að hlusta á Eddu Andrésdóttur færa okkur fréttir á meðan við borðuðum steikta ýsu í raspi. Já svona kemur heimþráin fram í sínum ýmsu myndum.

Þessa dagana langar mig svo að eiga mér svona eins og einn eða tvo sjónvarpsþætti sem ég fylgist með vikulega. Alveg sama hvort það er raunveruleikaþáttur eða vandaður spennuþáttur, mig langar bara að eiga mína þætti. En þar sem ég er sjaldan heima við kvöld eftir kvöld er ekki mikill séns á því. En svo næ ég varla neinni stöð. Næ bara Rúv, og hún er e-ð mjög óskýr. Í kvöld ákvað ég að fara snemma heim, eiga kósí kvöld með sjálfri mér. Kveikti á lömpum og kertum og fór í þægileg föt. En hvað er þá í óskýra sjónvarpinu; FÓTBOLTAKVÖLD!!!

Útkoma kósíkvöldsins er því þetta blogg.
Gjörið þið svo vel!

mánudagur, september 03, 2007

Árstíðarmót


Hjá mér eru mótin á milli sumars og hausts umfangsmeiri en áramótin sjálf. Ég fæ alltaf gífurlega þörf á haustin til að stokka upp lífinu, aðallega bæta það. Flestir kannast við þessa "skólinn hefst á ný-orku", en á hverju hausti sl ár hef ég sett mér gífurleg markmið fyrir skólaárið. Markmið eins og "ég ætla alltaf að læra heima, alltaf, alla daga og meira en það", "ætla að hreyfa mig á hverjum degi" og fleira í þessum dúr. Koma sjá og sigra, og trúa því.

Í ár verður enginn skóli sem byrjar þetta haustið, bara mikil vinna framundan. En ég er á fullu í því að taka allt í gegn í lífinu, fullorðins-háskólagengna-lífinu. Fjármálin voru tekin í gegn í dag, skatta-áhyggjur heyra nú sögunni til, viðbótalífeyrissparnaður gefur mér hressandi elli ár, kíkt á námskeið og í leiðinni hvaða styrkjum ég á rétt á hjá VR, yfirdrátturinn kvaddur án nokkurs söknuðar. Svo er ég nú stödd í starfsþjálfun í móðurhlutverkinu akkúrat núna. Á laugardaginn eigum við Sölvi funheitt sólarhringsstefnumót.

Bæjó