þriðjudagur, desember 25, 2007

Have your self a merry little christmas...

Gleðileg jól!

Það er greinilegt að óskirnar rætast. Ég get ímyndað mér að margir hafa óskað sér hvítra jóla, þá sérstaklega með hægum fallegum snjókornum falla til jarðar á jólanótt. Og akkúrat núna ligg ég uppí rúmi á jóladagsmorgun, í nýjum náttbuxum, hreinum rúmfötum og fylgist með krökkum búa til snjókarl hérna fyrir utan. Ég er búin að dreyma um þetta öll jól sl. 4 árin. Vera heima hjá mér um jólin. Ójá ó já ó þvílík fullkomnun sem þetta augnablik nú er.

Var að horfa á Miracle on 34th street og trúi svo sannarlega á jólasveininn núna. Ég fékk allavega óskajólagjöfina mína í ár. Og það með þvílíkum fagnaðarlátum!
Gærkvöldið var vel heppnað í alla staði; ljúffengur matur, gleðileg fjölskylda, huggulegar gjafir og fyrrnefndur jólasnjór.

Já ég ætla að halda áfram að halda gleðileg lítil jól. Óska ykkur alls hins besta næstu daga.
Sjáumst svo feit og pattaraleg á milli jóla og nýárs!

þriðjudagur, desember 18, 2007

Ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að blogga um þessa dagana. Ég og Kamilla tölum reyndar alveg oft um það hvað lífið er gott og hvað okkur finnst gaman að vera til. Við erum á þessu "góða tímabili" sem maður lítur oft til baka á með bros á vör. Þekkið þið það ekki?
Kamilla segir skemmtilega hluti á sínu bloggi.
Hún kallar okkur síamstvíbura, og ég held að það sé réttnefni á okkur tvær. Síamsbaunir.

En ég veit ekki hvað ég get sagt ykkur. Ég hef verið að reyna að setja fleiri linka hérna á hliðarlínuna. En það virkar ekki. Fullt af bloggum sem ég kíki reglulega á.

Svo get ég sagt ykkur það að íbúðin mín heitir núna jólaland. Það eru komin upp jólatré, tvennskonar. Annað er ekta normannsþinur, hitt artifísialt keramík. Ég var svo heppin að ljótasta jólaskrautið hjá Kollu og fjölsk var það fallegasta jólaskraut sem ég hef séð, svo ég fékk það með mér heim:) Ja, ekki allir með sama smekk!


Já þetta var nú skemmtileg bloggfærsla.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Myndir myndir myndir






...segja meira en 3000 orð. Svo ég held áfram að pósta myndum.
Hérna er skemmtilegt party sett!

Annars er ekki við öðru að búast en að vera í jólaskapi , þó úti séu snjór og krap-og mikið partý stand (eða meira stormur og rigning). Ekki gleyma því að ég bý í 99 ára gömlu húsi.
Fór á jólatónleika Bó á lau, gæsahúðin spratt reglulega upp. Í gær var það svo litlu jól HÁS saumaklúbbsins, Maj-Britt Borgarnesfrú bauð heim. Ekkert smá notalegt það, graflax, hangikjöt, hátíðarsíld og konfekt. Mmmm...
Jólaglögg Exton í kvöld, Jólaglögg Hr.Örlygs í næstu viku. Farfuglabróðir minn er á leiðinni heim í frí, ásamt öðrum fuglum. Jólahlaðborð á Sigga Hall í næstu viku líka.

Jóla hvað?

miðvikudagur, desember 05, 2007

Góðir tímar







Fleiri myndir hérna

Jólin á Njálsgötu


Í fjögur ár hef ég saknað þess að halda jólin heima hjá mér, á Njálsgötunni. Öll þau jól sem ég bjó erlendis dreymdi mig um að vera með jólalegheit heima. Kaupa tré og hafa nóg af seríum, stinga negul í mandarínur, gera aðventukrans og spila jólalögin 24-7.
Þessi söknuður hefur orðið þess valdandi að ég er nú með gífurlegar kröfur á þessa blessuðu aðventu. Nú vil ég ekkert nema perfeksjón og sú stund sem ég skreyti þarf að vera heilög.
Ekkert smá mikið vesen!

Til dæmis í gær þá ætlaði ég að hengja upp e-ð svona jólaljósaseríustjörnunet í einn stofugluggann. Fyrst setti ég í vél (fannst það e-ð svona heimilislegt) setti svo jólalag á, og svo upp á stól, hengja, krækja á nagla. Stökk svo niður til að sjá, og þá var þetta allt skakkt og kramið, né þakkti allan gluggann.
Fór þá bara í fýlu.

Hér með er ákveðið jólalegt kvöld hjá Dill og Mill á fimmtudagkvöldið. Upp með skreytingar, saman með kransinn, og kannski bara skella sér á jólatréið?
Fyrir þá sem ekki vita er Kamilla ekki í saumaklúbb, svo þetta verður hennar saumaklúbbskvöld. Saumaklúbburinn Dill og Mill, á sér líka drykkinn Dill og Mill (mildur morgunsafi EÐA suðrænn safi í gulan Egils kristal, subway klakar og rör)

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Væl

Finnst ég gera lítið annað en að væla um jet-lag á þessu blessaða bloggi. Kannski er það af því að ég gef mér tíma til að blogga þegar ég ligg heilu og hálfu næturnar glaðvakandi, en vil ekkert heitar en að getað sofið heilan nætursvefn. Núna er klukkan 6.06 og ég glaðvaknaði kl.2.30 í nótt og hef bara verið að bíða síðan. Fyrst beið ég eftir því að sofna, en núna bíð ég eftir því að klukkan verði 7.00 svo ég geti farið uppí Laugar.
-Já best að minnast samviskusamlega á það að ég sé að fara þangað. Jafnvel gæti fólk haldið að ég væri alveg alltaf jafn dugleg að mæta í ræktina. Já já, haldið það sem þið viljið. Diljá Fonda, that´s me!

Ég er búin að vera að pressa á sjálfa mig að skrifa e-ar skemmtilegar lýsingar frá San Francisco og Las Vegas ferðinni. Andinn kemur alltaf yfir mig þegar ég er frá tölvu.
En annars var þetta alveg dásamlega ferð, ég er í skýunum með þetta allt saman. Mæli svo sannarlega með sól og blíðu og hressandi borg í nóvemberdimmunni, þeas að fara héðan úr dimmunni á Íslandi.

Mig vantar ráðleggingar varðandi tvennt:
1) Heilsársdekk (ódýr og góð, hvernig ber ég mig að?)
2) Heimilis þrifumanneskju (ódýr og góð, hvar byrja ég að leita?)

Anyone?

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Leaving for Las Vegas


Já nú styttist í að við Frímann stígum upp í flugvél og fljúgum yfir til Vegas. Fengum flug fram og til baka og tvær nætur á MGM Grand hótel (sjá mynd) á 170$. Gjöf en ekki sala!

Ferðablogg á leiðinni.
Er að drífa mig núna á MOMA SF (Museum of Modern Arts San Francisco) að sjá stóra sýningu með Ólafi okkar Elíassyni.

Bæjó elskurnar!

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Komin


Jæja þá er ég komin aftur til San Francisco, þetta var ekkert smá mikið ferðalag! Að vanda er ég með jet-laggið góða. Klukkan er 5 um nótt og ég glaðvöknuð. Jet-lag elzkar DiljáSan.
Ætla að reyna að sofna aftur.
Bæjó!

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Ég átta mig ekki alveg á þessari hræðslu hjá fólki við að fara í smá pre jólaskap. Sjálf hélt ég skemmtilegan jólalunch hérna á laugardaginn sl. og ég sá ekki betur en allir skemmtu sér vel og nutu sín. Meira að segja tók einn guttinn sig til og skellti skónum sínum uppí glugga á meðan hann japlaði á piparkökum og jólablöndu.
Ég sé nákvæmlega enga ástæðu til þess að spara það góða. Jólin þurfa ekki endilega að þýða neysluæði og stress. Heldur eiga jólin að tákna samveru góðra vina og ættingja. Ekki satt?

Þetta skammdegi er reyndar að taka sinn toll, það er einfaldlega erfiðara og koma hlutum í verk. Ræktin hefur setið á hakanum, og skemmtistaðir borgarinnar hafa verið heimsóttir ótt og títt sl vikur. Núna verður tekið sig á! Held til San Francisco næstu helgi og verð í góðu yfirlæti hjá Öddu og Klaus, og svo er Frímann minn líka ekkert smá rómantískur félagi. Við erum að hugsa um að skella okkur í ríkisbubbaferð til Vegas. Musteri óraunveruleikans.

Eru þið ekki annars hress þarna úti?

mánudagur, október 29, 2007

Tónlistin ó tónlistin

Ég stend á tónlistarlegum tímamótum núna.
Fyrir nokkrum vikum tókst mér á einhvern ótrúlega snjallan hátt að eyða út allri tónlistinni inni á iTunes-inu mínu. Nokkrum vikum seinna gaf skjárinn á iPod-inum mínum sig og áður en ég vissi af var ég búin að selja Apple búðinni hann á 6000kr inneign. Það var semsagt of dýrt að gera við skjáinn.

Fyrir ykkur sem þurfið frekar útskýringar að þá á ég ENGA tónlist núna. iTunes tómt og iPod í sérstöku iPod himnaríki.

Þetta er mjög skrýtin tilfinnig. Nú er bara að hefjast handa að setja inn gamla góða geisladiska, nota fire wire í tónlistarríkum tölvum og svo ætla ég að fjárfesta í nýjum iPod í San Francisco í næsta mánuði.
Þangað til er það bara gamla góða gufan. Sem er reyndar bara dásamleg.
Skammdegi, snjór, te og Rás 1. Walking in the winterwonderland....

fimmtudagur, október 25, 2007

Dill og Mill og AAA á Airwaves

Tvær alltaf soldið ánægðar með sig.

Enda teymið óstöðvandi. Dill og Mill went up a hill. Takk fyrir allt Millis míns. (Hallooh!)
En núna erum við komnar niður á ný, komnar til jarðar eftir eina bestu viku ársins 2007.
Ég er með heimþrá í vikuna 15-21.okt 2007. Langar aftur þangað.

Ef þið viljið kíkja á video-podcast þá eru hérna tveir góðir linkar:
Airwaves podcast
MySpace podcast
Serah Meriah mín Apamamma er þáttarstjórnandinn á MySPace-podcastinu.

En núna er maður bara komin árlegt jólaskap, byrjuð að plana litlu jólin, jólagjafakaup og hlusta á eitt og eitt jólalag. Geng alltaf um með jólasveinahúfu heima við. Nei bara grín.
Grýlurnar Prod. ætla einmitt í spa-ið á morgun. Er það ekki jólalegt?

Svo er margt framundan. Fer til San Francisco og LA um miðjan nóv, jafnvel til Madrid á næstu dögum, Köben, Árósar og Malmö í des. Kannski maður reyni að vinna e-ð líka þarna inná milli. Mikið spennandi að gerast á atvinnuvígvellinum og jeg elsker mit liv!

mánudagur, október 22, 2007

Post depression

Elsku Airwaves er búið og klukkan er 2.30 á sunnudagsnótt, sko aðfaranótt mánudags og ég og Kamilla vorum að koma heim. Tipsy. Ég trúi ekki að þetta sé búið. Eitthvað sem ég er búin að vera að vinna að sl mánuði er bara finito. En allavegaanananananana:

ÞETTA VAR ÆÐISLEGT!!!

Við Kamilla erum að hlusta á Létt 9,67 og fá okkur ristað brauð með osti og gúrku og kókómjólk. Mmmmm.

Bæjó

laugardagur, október 13, 2007

Diljá during Airwaves countdown...

Spurning um að fara að gera eitthvað í þessu. Spurning um að fara að vinna. Nei þá er fínt að fara í photobooth. Já já



fimmtudagur, október 11, 2007

Sósað ástand

Mikið rosalega er kvef eitthvað fríkað ástand. Þá fyllast e-r göng inní andlitinu af slími, sem af og til lekur niður. Stundum sýgur maður upp en stundum þrýstir maður því niður í tissjú.
Röddin breytist og hálsinn þornar og bólgnar. Stundum klæjar mann svo að maður þrýstir andanum hratt út með tilgerðum hreyfingum og hljóðum. Hósta. Hnerra.

Ég er kvefuð.

Í gær mætti í ég í apótekið, lagðist fram á borðið og hélt debetkortinu mínu úti og sagði konunni að týna í poka það allra nauðsynlegasta sem þarf til þess að losna við kvefið sem allra fyrst. Svo týndi ég að sjálfsögðu e-ð kvennlegt drasl í pokann líka. Ég get eytt svo miklum pening í apótekum. Gerir e-ð fyrir mig.
Svo fór ég á trúnó við konuna líka. Stundum hrynur yfir mig eitthver þörf til að deila ótrúlegustu hlutum með afgreiðslufólki. Þetta hef ég gert útum allan heim.
Já ok kannski ekki allan.

En já ég er kvefuð, og stressuð og að drukkna í vinnu. Get ekki unnið fyrir vinnu. Þá er nú mikið sagt.

En allt þetta í graut, er frekar steikt ástand. Með sósu ofan á því.

þriðjudagur, október 09, 2007

Retrospect helgarinnar

Síðasta helgi var að mínu mati alveg frábær helgi, innihaldsrík og stútfúll af góðum stundum og enn betri vinum. Má til með að deila henni með lesendum bloggsins míns.

Á föstudagskvöldið komu saman vinkonur mínar úr ÖLLUM áttum (ásamt mér) á Nasa. En þar hélt Hr.Örlygur, í samstarfi við Grapevine, Airwaves upphitun. Frábært framtak, en þar fengu þeir sem hafa nú þegar keypt sér armband á hátíðina, smá forsmekk, forplay, smakk af því sem koma skal. Vinkonur mínar komu reyndar af því að það var frítt áfengi. Shiiii...
Svo var haldið á "barinn", eða Ölstofuna. En þar hitti engan annan en hann pabba minn, hann hafði verið dreginn út á lífið af Brunamálastjóra Ríkisins. Pabbi bauð skástu dóttur sinni í glas og við fórum á trúnó. Glæsilegt.

Á laugardagsmorgunn var hringt út og boðið í morgunverðarhlaðborð á Njálsgötunni. Scramled eggs a la Diljá, bóndbrauð, djús-sódavatnsblanda og Frank Sinatra. Mmm klikkar aldrei.
Smá kúr eftir morgunmatinn og svo var haldið í laugar-spa með Söndrunni minni. Málin voru krufin í heitustu gufunni og dottað í hvíldarhreiðrinu við arinneldinn. Mætti fílefld til leiks á ný og við Ástríður fórum á American Style, úff úff úff. Er ennþá södd.
Eftir stutta heimsókn í vinnustofu Nakta Apans héldum við svo á Heima-eða mynd Sigur Rós um tónleikaferðalag sitt á Íslandi 2006.
Sem mikill, sannur og einlægur aðdáandi hljómsveitarinnar voru þetta rosalegar 110 mín. Ég get varla líst þessu nógu vel. Ég segi að þetta sé þribbel. Þettu voru tónleikar, fallegar íslandsmyndir og krúttíleg viðtöl við liðsmenn. Allt saman. Ég fór oft að gráta og gæsahúðin var stöðug. Þessi fær 5 stjörnur af 4 hjá mér.

Á sunnudagsmorgunn var nýr þáttur af Greys Anatomy kominn í hús og við Ástríður heimalingur hentumst frá rúminu uppí sófa og gleyptum þessa spítalasnilld í okkur í morgunsárið. Svo komu Kata súkkulaði og Ragnar í huggulegheit. Á meðan tók ég mig til og loks fórum við Ragnar uppstríluð í brúðkaupsveislu elsku Kollu og Lilju. Brúðirnar voru fallegar og geisluðu og ég samgleðst þeim innilega. Kolla svo vær með bumbuna og Lilja algjer skutla í flotta Karen Millen kjólnum. Boðið var uppá ekta íslenskt hlaðborð, eða brauðtertur, snittur, flatkökur, kleinur og hnallþórur. mmmm. Til hamingju aftur!
Á sunnudagskvöldið lágum við Ragnar og Kamilla í sófanum góða og töluðum frá okkur allt vit og lásum gömul blogg fyrir hvort annað.

Dásamlegt alveg hreint.
Langt síðan ég hef bloggað svona.
Eigið góðan dag kæru lesendur!

föstudagur, október 05, 2007

Irrrrrrrritation

Það sem fer mest í taugarnar á mér er:
Smjatt eða hljóðið þegar fólk borðar mat með opinn munninn.
Það er mér (annars mjög svo æðrulausu konunni eehum) algjerlega óskiljanlegt að fullorðið skuli smjatta. Kenndi enginn þeim mannasiði? Smjatt er og hefur lengi krónað á toppnum hjá mér yfir atriði sem fá mig til að vilja hamfletta mann og annan í stað þess að sitja til borðs með smjötturum.
Sötur, rop með lykt, hljóðið sem myndast þegar hnífapör skell á tönnum, prump, hrotur er allt eitthvað sem ég get frekar umborið. En smjatt-hljóð. Það sker á taugarnar. Oj

Annað sem fer líka í taugnarnar á mér eru stöðumælaskuldir. Sérstaklega þegar ég byrja daginn á því að finna eina slíka klemmda undir rúðuþurrkuna. Á þriðjudaginn var reyndar búið að keyra á bílinn minn, sést þónokkuð á honum. En svo var miði undir rúðuþurrkunni: "Afsakið ég á ekki nýju beygluna á bílnum þínum"

Já einmitt. Takk fyrir það elskan!

þriðjudagur, október 02, 2007

Bara svona svo þið vitið...

að þá var Gyðjur og Gleði undir jökli kannski ekki alveg málið...
Svo ég sýni nú mömmu og pabba hversu vel þau ólu mig upp sleppi ég því bara að skrifa lýsingar á námskeiðinu sem ég borgaði 32.000kr fyrir. Já já.
En svona þegar maður heldur varla jafnvægi af kjánahrolli kl.9.30 á laugardagsmorgni, í hring með 14 konum að syngja gleðilegt Drottinslag í jazzaðari útgáfu og dansa hliðar saman hliðar, já þá var bara tími til komin að fara og tjékka sig út. Er það ekki bara?

Að sjálfsögðu hættum við María ekki við að finna Gyðjuna í okkur upp undir Jökli. Ó nei... Tekið var hótelherbergi á Hótel Búðum, sett á sig maska, farið í langa sturtu, kúrt uppí rúmi með Búðarkirkju og hraun sem útsýni, uppbyggileg tímarit lesin, borðaður grænmetismatur, drukkið rautt og hvítt, horft á When Harry Met Sally, farið í langa göngutúra í fjörunni og hrauninu, farið í royal-morgunmat á náttfötum með Kivanis-klúbbnum, Snæfellsnesið keyrt þvert og endilangt og ó já ó já já.
Á maður ekki að selja inná þetta prógram frekar?

Ps. Mæli með Stykkishólmi.

15 dagar í Airwaves, eigum við að ræða þetta e-ð frekar. Nei ég hélt ekki.

þriðjudagur, september 25, 2007

Gyðjur undir jökli


Næstu helgi tek ég mér húsmæðraorlof ásamt Maríu Rut og er ferðinni heitir í kvennaferð upp undir Snæfellsjökul, er það ekki örugglega besti staður landsins?
Þetta er nokkurskonar námskeið og gengur undir nafninu
Gyðjur og gleði-orkuhelgi fyrir konur undir jökli
Inniheldur tildæmis:
* dansjóga * orkudans * dans Gyðjunnar * jógaleikfimi / orkustöðvajöfnun * sund í ölkeldulaug / heitur pottur * gönguferðir / útivera * grænmetisfæði og hreinsun * hvíld og slökun
* hópsöngur * sögur * tími fyrir þig / kyrrð * meiri orka * útrás og umbreyting
* skemmtileg sjálfstyrking / hugrekki * að uppgötva Gyðjuna sína * náttúruleg fegurð / innri fegurð
* styrkjum kvenleika okkar / kvenorku * uppbyggilegar leiklistaræfingar * jákvæður máttur hugans
* tengjast betur innsæi þínu og flæði * himneskar ilmolíur
Sjá meira á www.pulsinn.is

Úff hvað þetta er innilega mikið ég! Asskotas vessjen á manni! :) Hlakka allavega alveg rosalega mikið til.

fimmtudagur, september 20, 2007

Velkomin elsku hásynja!

Mig langar til að óska nýju vinkonu minni velkomna í heiminn.
Hún er Maj-Brittar/Einarsdóttir Briem og mætti aðeins fyrir tímann, eða á föstudaginn 14.september kl.15.26 og vó hún þá 13,5 merkur og var 50cm á lengd.
Ég held að það eigi eftir að fara Maj-Britti minni mjög vel að eiga mey-ju. Eða stúlku í meyjarmerkinu.
Eruð þið að spá í því sama og ég? Ó já krúttmælar heims að springa. Obboooðsslleegah sæt, asssskoatssvessjen á þessari! :)

miðvikudagur, september 19, 2007

Nói sá að sér


Það var einhver sem hlustaði á bænir mínar og annara íhaldsamra fagurkera okkar Íslands. Nói hefur nú tekið ljóstustu transformuðu pakkningsbreytingum allra tíma til baka og útlit nánast komið í sama horf og það var áður. Núna vil ég bara litla pakka og bláan opal aftur. Þá er ég ánægð.

Eftirfarandi færslu skrifaði ég og birti hérna á blogspot.com fyrir tæpum tveimur árum, hluti af henni birtist svo í DV. Já já...

laugardagur, október 22, 2005

sykurlaus opal, truno og barnapössun

hver er ábyrgur fyrir því að koma með nýtt útlit á opal pakkana sykurlausu? ég er búin að kvíða þessu í nokkur ár, búin að kvíða því að það sé eitthver þarna úti með nógu mikil völd og nógu lélegan smekk, sem komi svona slysi á markaðinn.
en ég keypti mér samt einn. og sykurlausa appelsín í plasti.
í gær fór ég á trúnó með píparanum mínum og svo fór ég líka á trúnó með tveimur konum hjá Orkuveitunni. Sigrún í þjónustuverinu og Unni í innheimtudeildinni. Öll þrjú trúnóin áttu sér stað fyrir klukkan 12 á hádegi. Mér liggur stundum e-ð svo margt á hjarta.

þriðjudagur, september 18, 2007

Djoggandi í brjéttinu...

Matta vinkona sagði eitt áhugavert um daginn; henni fannst soldið fyndið þegar fólk bloggaði óbeint um mætingu sína í ræktina. Svona til að sýna öllum heiminum hvað það er duglegt að djogga og lyfta. Ég er sammála henni, en á hinn bóginn held ég líka að maður hafi einmitt svo mikinn tíma til að hugsa um hvað maður getur bloggað um á meðan maður er að púla í ræktinni. Hugurinn fer ósjaldan af stað, hvort sem það eru dagdraumar eða vangaveltur um eitthvað magnað sem lífið hefur uppá á bjóða. Allavega er ég búin að blogga fjöldan allan af færslum í huganum, í ræktinni. Finnst ég svo málefnaleg, sniðug og spennandi alltaf. En svo gleymi ég öllu um leið og ég geng út aftur.

Eitt af því sem ég man eftir að hafa "bloggað" um í ræktinni er að ég vildi óska að það væri algjerlega eðlilegur hlutur að syngja með tónlistinni sem maður hlustar á í iPodinum sínum. Fyrir mér skiptir það öllu máli hvað ég er að hlusta á, orkan/þolið kemur að stórum hluta til úr tónlistinni. En stundum er ég orðin svo hress að mig langar bara að taka undir og góla með.

En það er víst ekki málið þarna í Laugum, ég held að Arnari Grant og Sölva Kalóríukvóta finnist það "klárlega" ókúl.

Talandi um Sölva. Á morgun er komið eitt ár síðan að hann Sölvi Freyr kærasti minn mætti í heiminn. Þetta köllum við langtíma samband. ó já ó já!

fimmtudagur, september 13, 2007

Ætla ekki allir að koma á Airwaves 2007?

Ég verð þessi á barnum í frönskum með e-um bassaleikara.
Verð að vinna þangað til.
Sé ykkur þar dúllurnar mínar!

föstudagur, september 07, 2007

Í sjónvarpinu er þetta helst

Ég er ekki mikill sjónvarpssjúklingur en þó finnst mér mjög gott að hafa sjónvarpið á þegar ég er heima við. Sérstaklega fréttirnar, svona þegar ég er að stússast e-ð heima við. Þegar ég bjó sem unglingur í Hollandi saknaði ég þess til dæmis mikið að hlusta á Eddu Andrésdóttur færa okkur fréttir á meðan við borðuðum steikta ýsu í raspi. Já svona kemur heimþráin fram í sínum ýmsu myndum.

Þessa dagana langar mig svo að eiga mér svona eins og einn eða tvo sjónvarpsþætti sem ég fylgist með vikulega. Alveg sama hvort það er raunveruleikaþáttur eða vandaður spennuþáttur, mig langar bara að eiga mína þætti. En þar sem ég er sjaldan heima við kvöld eftir kvöld er ekki mikill séns á því. En svo næ ég varla neinni stöð. Næ bara Rúv, og hún er e-ð mjög óskýr. Í kvöld ákvað ég að fara snemma heim, eiga kósí kvöld með sjálfri mér. Kveikti á lömpum og kertum og fór í þægileg föt. En hvað er þá í óskýra sjónvarpinu; FÓTBOLTAKVÖLD!!!

Útkoma kósíkvöldsins er því þetta blogg.
Gjörið þið svo vel!

mánudagur, september 03, 2007

Árstíðarmót


Hjá mér eru mótin á milli sumars og hausts umfangsmeiri en áramótin sjálf. Ég fæ alltaf gífurlega þörf á haustin til að stokka upp lífinu, aðallega bæta það. Flestir kannast við þessa "skólinn hefst á ný-orku", en á hverju hausti sl ár hef ég sett mér gífurleg markmið fyrir skólaárið. Markmið eins og "ég ætla alltaf að læra heima, alltaf, alla daga og meira en það", "ætla að hreyfa mig á hverjum degi" og fleira í þessum dúr. Koma sjá og sigra, og trúa því.

Í ár verður enginn skóli sem byrjar þetta haustið, bara mikil vinna framundan. En ég er á fullu í því að taka allt í gegn í lífinu, fullorðins-háskólagengna-lífinu. Fjármálin voru tekin í gegn í dag, skatta-áhyggjur heyra nú sögunni til, viðbótalífeyrissparnaður gefur mér hressandi elli ár, kíkt á námskeið og í leiðinni hvaða styrkjum ég á rétt á hjá VR, yfirdrátturinn kvaddur án nokkurs söknuðar. Svo er ég nú stödd í starfsþjálfun í móðurhlutverkinu akkúrat núna. Á laugardaginn eigum við Sölvi funheitt sólarhringsstefnumót.

Bæjó

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Jet Lag

Ég er búin að halda mér vakandi í allan dag, titrandi úr þreytu. Nú þegar ég má fara að sofa, á að fara að sofa, er ég glaðvakandi.

Jet laggið er mætt á svæðið. Ótrúlegt fyrirbæri alveg hreint. Og þetta fyrirbæri elskar mig skilyrðislaust.

mánudagur, ágúst 27, 2007

High five!

Bara að það sé skrásett á spjöld sögunnar að þá kenndi ég Indiu (14 mánaða) að gera "high five"!
Það tók dömuna ekki nema eitt andartak að ná þessu, enda mikill snillingur.
Við frænkurnar sitjum hérna og hlustum á jazzaða Ellu Fitzgerald og borðum morgunmatinn, eða meira leikum með hann og hendum honum í gólfið (eða önnur okkar, ekki ég). Íslenska sjálfstæðið vantar ekki í fröken Indiu.




föstudagur, ágúst 24, 2007

..."think of a happyplace"...

Fyrir ári síðan var ég að byrja síðasta árið mitt í Kaos-inu. Fyrstu vikurnar fengum við hina og þessa (mis) áhugaverða fyrirlesara. Sumir sitja eftir vegna lærdóms og voru með gott innihald, aðrir voru einfaldlega góðir fyrirlesarar og náðu mér með sér í stuðið. E-ir hefðu getað sleppt því að koma.

Ég man eftir breskri konu fræða okkur um "wholistic businesses", nokkuð áhugavert. Og hún tók okkur í smá hugleiðslu í upphafi dagsins, það var mjög fínt. Nema þegar seiðandi rödd segir manni að "think of happyplace" í svona aðstæðum hef ég oft panikkað smá og verið með valkvíða fyrir hvernig hanna skal þennan blessaða "happyplace". Og þ.a.l ekki slappað af. En svo þegar hún sagði "it can be abstract, it can be somewhere you have been before...." róaðist ég og ósjálfrátt lá leiðin heim til Nönnu frænku í Washington. En ég hafði eytt páskunum hjá þeim fyrr á árinu.
Mér leið svo vel þessa viku, þau eiga svo fallegt hús og Washington er mjög falleg. Svo er Nanna (fyrir þá sem ekki vita) ein af mínum uppáhaldsmanneskjum í öllum heiminum.

Akkúrat núna er ég stödd í þessu æðislega "happy place" eða í húsinu hennar Nönnu og fjölskyldu í Washington DC, USA. Amma Ransý og Afi Óskar eru hérna líka, þau lesa blöðin og Dante og India leika sér um gólfin. Sjálf er ég að vinna aðeins og drekk með því "half half, de caf, charamel mochachino" frá Starbucks. Á eftir förum við í Georgetown í siglingu.

Me iz happy. Yeez.

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Takið eftir því að við erum í eins jökkum

Systkinin Diljá og Örn Alexander Ámundabörn stefna að því að slá
heimsmet í hvísluleik í garði Listasafns Einars Jónssonar við
Skólavörðuholt á Menningarnótt. Þau vonast til að gestir
Menningarnætur taki þátt í leiknum en vel yfir 1000 manns þarf til
þess að fyrra met verði slegið. Hér gæti því orðið um að ræða
sögulegan atburð!

Fyrra metið var slegið í Kína á síðasta ári þar sem 1082 hvíslarar
létu orðið ganga alla leið.

Orðið fer af stað kl.15 :00 og er fólk hvatt til þess að mæta
tímanlega. Í garðinum verður líf og fjör á meðan fólk er að koma sér
fyrir. Þetta er tækifæri fyrir Reykvíkinga til að standa þétt saman,
hvíslast á og slá heimsmet í leiðinni.

Meira um fyrirbærið hvísluleik (Chinese Whispers) á Wikipedia
http://en.wikipedia.org/wiki/Chinese_whispers

fimmtudagur, ágúst 09, 2007

mánudagur, júlí 30, 2007

Sumarið

Jæja þá er ekta íslenskt sumar byrjað:) Og mér finnst þessi rigning bara notaleg.

Ég fæ yfir 50 email á dag dag hvern, þessa dagana hljóma þau meira og minna öll eins;
"OUT OF OFFICE REPLY"

Já það er sumar á Íslandi og víða núna. Á næsta ári ætla ég sko svo sannarlega að fá að setja þessi blessuðu merkisskilaboð í tölvupóstinn minn.
Það verður þá í fyrsta skipti sem ég geri það í mínu lífi. Vei!

Á morgun er það svo París. Ég ætla ekki að sofa yfir mig í þetta skiptið.

Oui oui!

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Get ekki beðið...

...eftir The Simpsons the movie. Búin að horfa á Simpsons síðan 1990. Þá voru þeir sýndir á laugardagsköldum á eftir fréttum og á undan Americas Funniest Home Videos, en þar á eftir kom Twin Peaks. Ég elskaði þessa dagskrá. Ég meina; we all love Bob Saget ikke sant? heh
En já nú er komin mynd með þessum elskum. Í tilefni af því gat ég sett sjálfa mig í Simpsonsbúning. Setti mig að sjálfsögðu í rauðar gallabuxur. Það er svo sessý.

Jæja Hemmi minn, þetta blogg er ágætt og ég er í stuði með Guði og félugum hans. Ég bið ykkur vel að lifa og þeir sem vilja hitta mig, þá verð ég á Moe´s ok?

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Dagar, nætur, vikur, mánuðir, ár...

...hamingjustundir, gleði, sorg og tár!
Áfram, áfram fetar lífið sinn veg. Er ekki tilveran hreint stórkostleg?
Fann hérna eina heimasíðu með dásamlegum íslenskum dægurlögum. Held þau séu öll eftir Jóhann G.
Já hérna sit ég í vinnunni með headphone-in hans Sveinbjörns (sem ég er að spá í að stela, því þau eru nákvæmlega eins og þau sem ég keypti á www.headcandy.com en týmdi ekki að borga útúr tollinum, svo ég fékk þau aldrei) En á meðan ég hlusta á Röggu G, Bjögga H, Pálma G og Óðmenn, hlusta kollegar mínir á ærslafullar og metnaðarfullar Airwaves-umsóknir. En skrifstofan er á floti, umsóknir aldrei verið fleiri. Nú þegar hafa þessir verið staðfestir.
Meira á leiðinni.

Þetta verður glæsilegt festival í ár. Hvet alla til að mæta, Iceland Airwaves er tónlistarhátíð á heimsmælikvarða. Hvar er svo þessi heimsmælikvarði?
Kannski í Laugar SPA?
En það er nýja fíknin mín (eyrnapinnar eru samt ennþá agalegt vandamál). Síðan ég fékk kortið í Laugar SPA hef ég ekki getað sleppt úr degi, elska að púla í gymminu og hendast svo í baðstofuna. Í slopp og trítla í piparmyntu- eða appelsínugufu. Fyrir ykkur sem kunnið frönsku segi ég nú bara: C´est la vie!! Hvar hef ég verið?

Best að fara að koma sér af stað kannski...

fimmtudagur, júlí 12, 2007

-->eighties babies<--


Við Sigga höldum reglulega eðal video kvöld heima á Njálsgötu. Það er nánast orðin ritual hjá okkur. Tökum út sófann, nóg af púðum og teppin. Borðin sitthvoru megin við með poppi og gosi. Svo fáum við okkur lakkrís frostpinna.
Við tókum uppá því um daginn að leigja bara eitthvað sem framleitt var á níunda áratugnum, eða in the 80´s. Nú höfum við horft á:
Ferris Bueller Day Off:
Ein af mínum uppáhalds uppáhalds allra tíma. Pabbi tók mig á hana í 5 bíó á föstudegi í Stjörnubíó þegar ég var 7 ára. Alla tíð síðan verið "kvótuð" og elskuð. Mynd sem eldist rúmlega vel, og meira en það. Langar að bjóða aðstoðarkonu skólastjórans í kaffi.
Nýtt Líf og Dala Líf:
Þessar myndir eru allt í lagi, mér finnst aðrar íslenskar myndir eldast betur. En það eru nokkrir punktar sem eru klassískir og fyndnir. Þór og Daníel eru samt vel gerðir karakterar, og þessar týpur finnast víða.
Cant buy me love:
Patrick Dempsey (McDreamy) er lúði sem verður vinsælasti gæinn í skólanum. Heyrt þennan áður? Ég sá þessa mynd greinilega mjög oft á sínum tíma, því ég kunni hana næstum því utan af. Þessi mynd inniheldur allt sem amerísk-unglingamyndar -formúla leggur fram. (nema kannski einn svertingja).

Í hús eru komnar myndirnar:
Say Anything,
Never Ending Story
Rain Man
The Labyrinth
og hinir íslensku sjónvarpsþættir Fastir Liðir eins og Venjulega.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Frankfurt

Hér sit ég á svæðisskrifsofu Icelandair í Frankfurt. Var að klára fund. Svo fullorðins sko.
Frekar sifjuð, vaknaði kl. 5.26 í morgun, en það var akkúrat einni mínutu eftir umsaminn tíma fyrir pikköpp ferðafélaga míns.
Hvað gerir kona þá?
Setur hárið í strekt tagl og hárspray yfir. Kastar ísköldu vatni framan í sig, á meðan hún tannburstar sig. 7 sprautu Love spell sturta. Rífur sokkabuxurnar vel og vandlega. Enginn tími til að redda því. Leggings yfir. Sem betur fer er þröngi hneppti svarti bizness kjólinn hreinn og þurr. Þægilegir skór við. Flugfreyjuleg kápa yfir, gerir ósturtaða svefnburku faglegri. Tölvan, snúran, snyrtibuddan, síminn og lyklar ofan í töskuna. Ferðafélaginn hringir inn og rekur á eftir mér; "ég er á leiðinni niður" Bara tvennt eftir; pissa og passinn!!! "Plís passi vertu á þeim stað sem ég held að þú sért á" Skúffan opnuð og dadadaddd, þarna liggur þessi elska:) Svo var það bara pissið og svo út í bíl.

Þetta tók mig 5 og hálfa mínutu. Ég er ekki að grína. Klapp fyrir mér. Er það ekki?

Ps. Málaði mig hjá Álverinu.

Kveðja
fröken
bratwurst, erlendis.

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Blogg um brúðkaup(sleysi)

Ég óska eftir brúðkaupi til að mæta í í sumar. Anyone, anyone...anyone? (verðlaun fyrir þann sem veit úr hvaða mynd þetta er!)


Í brúpkaupum finnst mér einstaklega skemmtilegt. Þar eru allir svo huggulegir til fara, brosandi og hlægjandi, frír matur, frítt vín, skemmtiatriði. Allir þarna saman komnir því að tveir einstaklingar eru svo skotnir í hvor öðrum að þau ákveða að staðfesta það fyrir Guði OooOG halda dúndurpartý í leiðinni. Í fyrra sumar fór ég í 3 brúpkaup (og eina jarðaför). Núna er bara ekkert á döfinni. Ekki einu sinni stórafmæli (sem er alveg álíka skemmtilegt fyrirbæri)

Sem betur fer hefur sólin verið með Íslendingum í liði sl vikur, því það er svo gaman í garðinum fyrir aftan Sirkús, og svo er grillmatur bragðgóður. Og sjampó, mmm sjampó. Já og allt bara betra þegar sólin er aðalatriðið og skýin auka.

Annars ætla ég fullt til útlanda núna í júlí. Alveg 4-5 sinnum. Geri aðrir betur!

sunnudagur, júlí 01, 2007

Mamma kom úr fjallagönguferð í gær. Hún fór með 25 öðrum konum að klífa tinda. Allt var svo skipulagt. Öll kvöldin voru vel heppnuð, hálfgerðar kvöldvökur. Allir dagarnir svo eftirminnilegir og frábærir.
Ég hitti mömmu í brunch í dag og hún sagði mér ferðasöguna. Eftir að hafa hlýtt á ferðasöguna sagði ég; "mamma margafaldaðu þessa ferð uppí 3 ár, og þá veistu mér líður"

Ég er búin að ganga í gegnum mjög erfitt tímabil sl. 2 vikur. Mér líður eins og ég hafi verið að koma úr 3ja ára ástarsambandi. Team 11 var elskhugi minn í 3 ár. Við áttum okkar hápunkta og okkar lágpunkta, okkar hlátursköst, okkar grát, okkar lög, okkar lærdóm, okkar orku, okkar losta, okkar fullnægingar, okkar móment, okkar ævintýri, okkar tíma. Okkar tíma. En hann er liðinn. Hann var svo góður á sinn hátt. Hann er samt búinn, og ég á e-ð svo erfitt með að sætta mig með það.
Ég er svo meðvituð um það að ég sé talandi eins og sjértrúarflokksbundin kona. En svo er ei. Ég var bara í svona soldið hressandi námi, INtensÍVT. Já það tók stundum á. En stundum leið mér eins og ég fullorðinssumarbúðum. Og stundum í virðulegum frumkvöðla viðskiptaskóla.
Skiptir ekki máli.

En núna þegar þetta er ritað hef ég skálað í sjampó. Við elskum öll sjampó. Það er gaman að fagna og þess vegna vil ég að þið öll lyftið glasi, og segið: SKÁL. JÁ SKÁL!

mánudagur, júní 25, 2007

My Space

Þetta MySpace er soldið fyndið fyrirbæri. Hin ný-unga-gjarna ég, fékk sér My Space alveg fyrir löngu. Sá að öngvinn var maður með mönnum nema vera með My Space. My Space hefur reyndar gert fólki mjög gott veit ég. Hitti stelpu um daginn sem er orðin soldið fræg, heimsfræg, út af My Space (og Greys Anatomy jú) og svo sé ég voða ástfangið kærustupar alla daga, þau tóku fyrstu skrefin á My Space.

En ég, ég veit ekkert hvað ég er að gera þarna. Ég kan rétt svo að setja nýtt lag á profilinn, og svo var ég að læra að setja mynda-comment fyrir nokkrum dögum. Daðrið er í lámarki, enginn mySpace rómans. Ó nei ó sei. Svo virðist enginn vera viss um á hvaða tungumáli skal vera tjáð sig á á MySpace. Íslenska eða enska. Ég er með ensku, en svo skrifa ég comment á íslensku. Flestir virðast gera það.

Svo finnst mér líka svo fyndið þetta viðkvæma fyrirbæri "top friends list"!!! Ég veit til þess að ég hef persónulega sært fólk með því að hafa það ekki inná listanum, eða sett það við hliðina á þessum og hinum. Svo analyserar fólk hvar á listann ég set það. Og ef það óvart fer "lægra" í listann, þá hef ég séð mína mynd fara út eða lægra hjá viðkomandi. Svona þögul samskipti um verðmæti vináttunnar. Alveg eðlilegt eða...?

Já já MySpace er æði, ég ætla að skoða þetta áfram. Er svo líka komin með Facebook, en þar hafa Norðmennirnir, vinir mínir, landað sínum tengslaþörfum. Lítið mál að fá mig yfir í það líka. Hvað er næst?

þriðjudagur, júní 19, 2007

Alltbú



Já þá er KaosPilot stúlkan komin heim aftur, útskrifuð. Eftir að hafa átt the walk in the clouds í 2 vikur er örlítið erfitt að lenda á jörðinni. Útskriftin á föstudaginn var dásamleg í alla staði, alveg magnað að hafa fjölskylduna og Siggu, Tinnu og Kötu Súkkulaði með mér, maturinn var góður, athöfnin bara rokk og ról og partýið, oh já partýið; það var snilld. Þemað var Heaven and Hell. Team 11 var jarðað með viðeigandi jarðarför, og auðvitað var sprautað á okkur heilum hellings af kampavíni.

Já KaosPilot, allt búh. Getur e-r sagt mér hvernig ég á að sætta mig við það?

fimmtudagur, júní 14, 2007

Orðlaus

Síðasta vika hefur verið ein sú allra besta í mínu lífi, hingað til. Ég er aðeins að koma til jarðar og mér líður eins og ég hafi verið inní eigin bíómynd. Þeas ég hefði ekki getað skrifað skemmtilegra handrit, né leikstýrt þessu betur...hvað þá valið betra fólk. Allt þetta fallega fólk, svona háskólagengin og fín.

Við erum búin að vera að grilla uppá þaki, sóla okkur á bestu svölum í heimi, hlusta á Beach Boys, drekka kampavín, borða brunch á huggulegum kaffihúsum, fara á ströndina og fá bíkínífar, halda surprice partý fyrir kennarann okkar, halda þykistunni afmæli með dvergaþema, fórum svo í 3ja daga ferð til Aasen. En þangað fórum við fyrstu dagana okkar saman í ágúst 2004. Allir svo sætir og fínir í sandölum og ermalausum bol. Alltaf að rifja upp og kannski gráta smá (eða bara svolítið mikið). Ljúfsárt er kannski besta orðið yfir þessar kveðjustundir.

Ég er búin að reyna að finna orð til að lýsa þessum skóla í 3 ár núna. Ég held að ég sé líka búin að gefast upp. Þetta var bara ein stór ó-lýsan-leg ferð.

Ævintýri lífs míns lýkur á morgun, föstudaginn 15.júní. Ég er ánægð að hafa fjölskyldu og vini hjá mér á þessum hátíðar degi.
--->Skrifa meira seinna, þegar ég er komin þetta tilfinningarúnk sem einkennir mig og Team 11 þessa dagana. Væmna Diljá í hæðsta gæðaflokki. Ekki amalegt. Set líka inn myndir sem fyrst.

Ykkar
Diljá sem er að fara að útskrifast á morgun

miðvikudagur, júní 06, 2007

Diljá before and after KaosPilots

Myndin á veggnum var tekin fyrsta daginn í skólanum, og þessi mynd af mér og myndinni var tekin í gær. Ég er ekki frá því en að ég hafi bara breyst smáveis.

Í dag ætla ég að haga mér eins og gráðugur Íslendingur í útlöndum. Á morgun og hinn er skóli. Team 11 aftur í hringinn. Spennandi.

mánudagur, júní 04, 2007

Drunk vs. Sober?

Fólk hefur sýnt því mikinn áhuga hvort ég sé farin að drekka aftur. Fyrir þá sem ekki vita hef ég ekki verið drukkin í 4 mánuði akkúrat í dag, eða síðan fyrstu helgina í febrúar, hérna í Árósum.
Bæði verið að fá skilaboð, og fyrirspurnir að heiman. En fyrir ykkur sem eruð mikið að spá í þessu að þá er svarið NEI, ég er ennþá bara á ímyndunarfylleríum hægri, vinstri.
Team 11, leggur mikla áherslu á að ég fari að ákveða hvenær fyrsta fyllerí-ið verður. Þeim finnst mjög merkilegt að það verður með þeim, og vilja helst að það gerist sem allra fyrst.

ótrúlegt hvað þetta er mikið mál allt saman hahaha:)

Það sem ég er annars að spá mikið í er hver í andskotanum er að gera mig rúmlega forvitna með því að skrifa furðuleg komment hérna á bloggið mitt. Spurningin er hvort þetta sé leyni aðdáandi sem er með boarderline stalkingissues. Eða e-r vinkona mín eða vinur sem er að gera gys að mér?

Well my dear Hemmi!

sunnudagur, júní 03, 2007

Póstkort frá Danmörku

Sæl mín kæru!
Þá er mín komin til Danmörku.
Hérna skýn sólin á himni, ég gizka á 20-25°C. Ekki amalegt að mjúk sjávargolan leikur um vangana og sér um kæla mann niður við og við. Mini-Iceland Airwaves fyllti Vega á föstudagskvöldið og ég dansaði svo mikið að fætur mínir voru soðnir. Ég náði að verzla í stærstu H&M á Strikinu fyrir 5 hluti á 10.000kr. á 15mín. Við Sara hoppuðum í rúminu á hótelherberginu á Hotel Du Nord. Tókum líka 6x leigubíl á einum sólarhring.
Það var gott að koma til Árósa, er í íbúðinni hans Helga á Helge-næs-gade. Götunafnið segir allt sem segja þarf held ég. Fór beint í Royaltrúnó með Guðnýu og Ástríði við lendingu, svo að hitta trylltan líð úr skólanum. Allt við það sama; ofurölvun, dansifans og teningaspil. Gekk svo heim með Jonasi á höfninni við sólarupprás. Magnað! Vissuð þið að sumir kranar líta út eins og risaeðlur? Ég fann eina búð opna í dag, það var Alta (lágvörumarkaður) keypti mér fyrir 600DK. Jáh greinilegt að neyzluþrá og geta mín er í hámarki núna...

Kossar og knús og bestu kveðjur
Diljá og fjölskyld.

laugardagur, júní 02, 2007

...I still have last night in my body. I wish you were with me...

mánudagur, maí 28, 2007

Ég heiti Diljá og ég er hippi (stundum)

Um daginn hélt Team 12 (þá statt í Vancouver Canada) Tour De Chambres-party leiðangur. Heima hjá Kamillu var þemað Team 11 (sem sagt mitt lið). Allir drógu (team 11) nafn uppúr potti og átti mannskapurinn að reyna að líkjast okkur sem mest, án þess þó að segja hvaða nafn þau höfðu dregið. Hinir áttu að giska.
Peter vinur minn dró semsagt mitt nafn, og þrátt fyrir að hafa talað eins og Björk í e-n tíma þá giskaði enginn á mig. En svo tók hann uppá því að segja: "oooh það er svo gaman hérna! -eru ekki allir örugglega að njóta augnabliksins?" og fleira í þessum dúr.
Þá stóð víst ekki á svörum og e-rir kölluðu um hæl "Ertu Diljá?!!!?"

Svona sögur finnst mér dásamlegt að heyra. Sjá mig allir svona?

miðvikudagur, maí 23, 2007

mánudagur, maí 21, 2007

The 6 values in my KP life

Life, when it's...

Playful - because the Life of a KaosPilot has to be motivational, creative and constructive

Real world - because KaosPilots works with real problems, real people and real conflicts

Streetwise - because a KaosPilot is never out of touch with what is happening at street level in our society

Risk-taking - because a KaosPilot possesses the will to be brave and take risks

Balanced - because a KaosPilot strives for the right dynamic and balance between body and soul, between form and content, and between human, time and economic resources

Compassionate - because human compassion and social responsibility is the hallmarks of a KaosPilot

...and finally a KaosPilot loves to celebrate - because a KaosPilot lives passionately and works hard for what is important to her. Doing her utmost to live life as a declaration of love towards life and herself, she is not afraid to fail. Therefore she always remembers to celebrate the victorious moments when they are there.


þriðjudagur, maí 15, 2007

Ný orð sem ég kann að nota í réttu samhengi

hestöfl, slagrými, tímareim og bremsubarki.

Þessi orð ásamt: 5 dyra, skráður -ártal-, bílaumboð, keyrður -km-,bílategundir, smurbók, kúpling og svo margt margt fleira hefur ratað inní orðaforðann og er nú notað í meira magni en ella. Ástæðan er einföld: Ég vil kaupa mér bíl.

Eins og marg oft hefur komið fram á þessu blessaða bloggi er ég í stjörnumerkinu Hrútur. Þolinmæði er því ekki mín sterkasta hlið. En þetta er mikill pjéningur. Ég verð því að vanda valið vel. Allir að hjálpa mér. Takk takk.

"sometimes I feel like throwin my hands up in the air... I know I can count on you!"

föstudagur, maí 11, 2007

Cover up the blind spot, hit me in the face.

Kosningar á morgun. Þetta er nú meiri farsinn.

En vá hvað Geir H. Haarde er mikið krútt. Nei ekki krútt. Dúlla.
Finnst ykkur það ekki? Mig langar alveg helst að klípa í kinnarnar á honum, og purra svo á honum mallakútinn.
úff getur e-r staðist þetta bros?

þriðjudagur, maí 08, 2007

Its mommy time!

India & Diljá Frænkufrænkur

Í fyrramálið mætir þessi rassgatasprengja til mín og við ætlum í mömmó á meðan móðir hennar Nanna fer að leika í bíómynd. Eins og sönn áhugamanneskja um falleg og hress börn sem mér tengjast er ég núna mjög spennt og búin að plana þessa klukkutíma út í ystu. M.a. inniheldur þetta "play-date" með kærasta mínum Sölva Frey (og mömmu hans) og hádegismatar-date með pabba. En þá sé ég fram á góðlátlegt rifrildi um athylgi Indiu. Eðlilega, eruð þið að horfa á þessa mynd? ú hvað hún er sæt. Enda blóðskyld mér.

--Alltaf ein og ein "barnalandsfærsla" hérna á síðunni minni. Já já.

sunnudagur, maí 06, 2007

úthverfamóðir eða drottning Studio 54?

Eftir seinni tónleika Gus Gus á Nasa núna í lok apríl var plötusnúður að spila. Það var mikið fjör á fólki, svo mikið að sumir tóku þetta alla leið.

Dásamleg!

fimmtudagur, maí 03, 2007

Bölmóðssýki og brestir

Skóböðull. Skó.Böðull. Ég böðla alla skó sem ég á. Reyndar nota ég aldrei orðið böðlun eða að böðla nema í þessu samhengi. Ég veit ekki um neinn sem fer jafn illa, en samt jafn ómeðvitað með skónna sína. Og ég.

Ég vil fá öll ráð og aðstoð til þess að takast á við þennan vanda? ok.
Hvað er ég að gera vitlaust? Og hvað get ég gert til að koma í veg fyrir þetta?

Talið við mig, til þess er ég hérna...

miðvikudagur, maí 02, 2007

Hvar fæ ég hjólaskauta?

Langar svo í gamla og góða hjólaskauta. Hérna áður fyrr fór ég allra minna ferða á bleikum og gylltum hjólaskautum. Var eina stelpan í hópi hjólabrettagutta og rúllaði með þeim útum alla borg. Td. niður Bankastrætið á fullri ferð og tók bara sénsinn í Lækjargötunni. Já og hér er ég enn í dag!
Í Borgarleikhúsinu fann ég svo e-a gamla á sínum tíma sem ég smellti á mig og rúllaði á bak- og hliðarsviðum. Stundum mátti sjá mig með gervi-óléttubumbu líka, svona eins og ekkert væri eðlilegra. Allir vanir því já.
Hef aldrei fílað þessa línuskauta, langar bara í gömlu góðu. Svona eins og ég er bara alltaf á venjulegu skíðunum mínum, líka bleik á lit.

Kveðja
óldSkúl-Diljá

mánudagur, apríl 30, 2007

Hápunktar síðast liðnu daga...

eru án efa tölvupóstar frá bekkjarfélugum mínum í Team 11. Er búin að lesa þá alla yfir 5 sinnum og ætla að lesa þá yfir 5 sinnum í viðbót ef ég þarf á því að halda. Best að fara að skrifa þeim til baka líka kannski. Já.

Það eru svo fleiri hápunktar. Látið mig nú sjá, svona var helgin:
Ég er til dæmis búin að fara 3var sinnum útað borða um helgina. 2 x Sushi (apótek & sushi train) og 1 x tapas barinn. Fór á Nouvelle Vague tónleika og sá Sprengjuhöllina. Bar söngleikinn Leg augum. Hékk e-ð á Kaffibarnum. Líka aðeins á Boston og B5. Tók kríu með Sölva hönk. Talaði í símann. Talaði á Msn. Ragnar er kominn heim til Íslands. Tók morgunkaffi á Prikinu. Leyfði mér að hlakka til að fara til DK í Júní. Fékk stig. Gerði mér góðan smoothie. Fékk hugmyndir. Fékk fiðrildi. Fór í sund í Vesturbæjarlaug. Fór í opnun á mini mall á Laugaveginum. Keypti mér leggings, á þessum stendur Fit&Fun. Fékk mér soyalattetogo. Borðaði á Grænum Kost (já ok 4 x út að borða). Fór á snyrtistofu í lit og plokk. Gerði mér grein fyrir áskriftinni sem ég er með í lífsgæðakapphlaupinu. Hugsaði til Báru minnar. 13 af ofangreindum hlutum gerði ég með Maríu Rut.

Daddarrarí, þar hafið þið það. Þetta var nú dúlluleg helgi ikke sant?

Bæjó

fimmtudagur, apríl 26, 2007

örfréttir skrifaðar í upphafi dags

---eftir að ég hætti að drekka gerðist ég ekki AA manneskja heldur A-manneskja. Vekjaraklukkuna þarf ég varla lengur og morgna nota ég í hin ýmsu hvunndagsstörf. Í morgun tók ég til dæmis létt þrif á baðherberginu.
"they tried to make me go to rehab, I said No No No..."

---mig langar til að benda á blogg-grein hjá Kastljós Simma. Ég gæti ekki verið meira sammála.

---ég hef lengi leitað að þessum fullkomnu heyrnartólum til að tengja við iPoddinn minn. Eftir mikla leit og pælingar fann ég þessi réttu. Þýsk hágæðavara varð fyrir valinu. Ég fann þau á netinu á 3500kr ísl., en á Íslandi kosta þau 6500kr. ég taldi mig því gera kostakaup og pantaði þau. Svo fékk ég sendingu frá Íslandspóst. Ég þarf að borga TOLL. Oh afhverju geri ég ekki aðeins meiri rannsóknarvinnu stundum? Maður er alltaf að læra.

---ég er mjög ánægð með hinn nýja kvikmyndaklúbb Græna Ljósið. Efst á blaði fyrir bíóheimsókn er myndin The Science of Sleep.

---um helgina langar mig að sjá Nouvelle Vague og ætla að sjá söngleikinn Leg í Þjóðleikhúsinu. Inná milli langar mig til þess að negla og bora aðeins í veggi hérna heima við.

---ég ætla einnig að festa kaup á leikfimikorti hjá Laugum um helgina. Draumurinn er þó að fá mér baðstofukort. Dekur og hugguleg heit, ó já já takk fyrir. Mmmmm...

---í gær slóum við Kamilla held ég heimshraðamet í "tali". Við tókum eitt laggott Skypesímtal og töluðum svo hratt að næstum mátti greina eld loga útur fögrum munnum okkar!

égbiðykkurvelaðlifabörningóð!
bæjó!

sunnudagur, apríl 22, 2007

Afmæliskveðja yfir haf og lönd



Í dag á afmæli mikil og merkileg manneskja.
Kamilla Ingibergsdóttir kom inní líf mitt fyrir tveimur árum og strax frá fyrstu stundu urðum við eins og æskuvinkonur. Strax á "þriðja deiti" hófum við búskap og deildum ekki bara herbergi, heldur líka rúmi. Sem og öllum lífsins leyndarmálum. Það er svo gott að vera vinkona Kamillu minnar. Svo gaman og auðvelt að gleðja hana. Maður veit alltaf hvar maður hefur hana, hún er með hróshæfileika par exelanz sem og "tuskar" mig til þegar til þess þarf. Gullblanda að mínu mati. Ég gæti haldið áfram endalaust um kosti hennar Kamillu.

Núna er hún lengst í burtu, í Vancouver, Canada. Ásamt team 12 í svokölluðum outpost.
Ég sakna hennar svo sárt, eða ljúfsárt. Gott að sakna svona merkilegrar vinkonu sinnar. Það verða því fagnaðarfundir þegar hún kemur til mín á Njálsgötuna í Júlí.
Ekta diljá-væmnis-kveðjur til þín elskan mín. Vildi óska að ég væri þarna hjá þér að fagna deginum. Spurnig um að hringja í new orleans fljótlega fröken?