miðvikudagur, mars 19, 2003

„Já“ við kynferðisafbrotum?

Er einhver sáttur við núverandi dóma við kynferðisafbrotum?
Það er stutt síðan ég áttaði mig á því að réttlætisgyðjan hefur bundið fyrir augun því réttlætið á að vera blint. Það sama á að ganga yfir Jón og séra Jón.
Það sem ég skil ekki enn er hvers vegna hún er hlekkjuð af fordæmum. Nema það sé til að tryggja samræmi á milli dóma.
Ef fordæmið á að tryggja samræmi, hvernig getum við þá réttlætt ósamræmið á milli dóma við kynferðisafbroti og þjófnaði? Ef við ættum valið, hver okkar myndi frekar velja að verða fyrir nauðgun en þjófnaði?
Ef fordæmið á að tryggja samræmi, hvernig brotnuðu hlekkir fordæmanna í fíkniefnamálum?
Er það vegna þess að þau urðu grófari og grófari?
Ef flest grófustu kynferðisafbrotin í dag verðskulda um þrjú ár, hve gróft þarf þá kynferðisafbrot að vera til að verðskulda þau sextán ár sem lagaramminn býður upp á?
Þekkir þú einhvern sem er sáttur við núverandi dóma við kynferðisafbrotum?
Dómsmálaráðherra þiggur vald sitt af okkur kjósendum. Launin eru góð og hún fær vald til að sinna starfinu, vald til að framkvæma og leggja fram frumvörp á alþingi.

Í staðinn viljum við að hún komi málum þannig fyrir að við getum verið sátt við okkar hlut.
Ert þú sátt/ur við núverandi dóma við kynferðisafbrotum? Ef við gerum ekki neitt erum við þá ekki að segja valdhöfum að núverandi ástand sé ásættanlegt?
Ef þú ert ekki sátt/ur þá geturðu sent dómsmálaráðherra vefpóst á: postur@dkm.stjr.is Fyrirsögnin gæti verið: „Sólveig Pétursdóttir“ og skilaboðin: „Ég er ósátt/ur við núverandi dóma við kynferðisafbrotum. Hvað ætlar þú að gera?“

Engin ummæli: