mánudagur, febrúar 28, 2005

Heim sætt heim...

Nú er ég komin heim til mín. Allavega það sem kemst næst því. Ég hef meðvitað tekið þá ákvörðun að vera smá flakkari á meðan ég verð í þessu blessaða námi mínu hérna í Danmörku. Enda ekki annað hægt því námið krefst mikilla ferðalaga á milli landa og er því bara dýrt og tímafrekt að koma sér OF vel fyrir. Vona að ég hafi þolinmæði í þetta.

En já Youssef minn er farinn og vonandi sé ég hann aldrei meir. Ég var ekki farin úr yfirhöfnunum þegar ég byrjaði að skrúbba klósettið, en það var allt útúr pissað gulu arabapissi og í bónus var búið að kempa niður nokkrum skapahárum. Hvað er málið með það? Sara vorum við ekki e-ntíma með slíka rannsókn? :)

Til að halda uppá flóttamannalokin keypti ég mér sunnudagsmoggann og í tækið fer íslenskt kvöld á myndbandi. Idol, How do you like Iceland? og fleira magnað íslenskt efni sem mun rúlla í kvöld. Nú vantar bara íslenskan fisk og Gerði B til að fullkomna kvöldið. Ég er að hugsa um að skjótast út í fötex og athuga fiskúrvalið.

mmm heima er gott
Vegna afskaplega kurteisilegrar ábendingar vil ég hér með koma þökkum mínum til skila til þeirra sem hýstu flóttamanninn Diljá um helgina:

-Marcus: þegar ég mætti með töskurnar heim til hans á föstudagskvöldið var mér tekið opnum örmum og mér var sýnt hvar ég gæti búið í íbúðinni. Þetta er lýsandi dæmi um skólafélaga mína. Hann hélt bara að ég væri flutt inn, án þess að spyrja, og fannst það eðlilegast í heimi. Var bara ánægður að hafa mig:) Elskann!
-Matta mín: Hún kom svo að ná í mig til Marcusar og hentumst við heim í vidjókúr enda 2 þættir eftir af Desperate Housewives maraþoninu okkar. Matta bauð svo fóttamanninum uppá dark toblerone í morgunmat, ásamt besta trúnó og meiri kúri. Takk fyrir mig Matta mín, megi Guð fylgja þér í gegnum súrt og sætt. Lifðu í lukku en ekki í krukku.
-Silla og Guðný x2: Takk fyrir mig og ef maður vill fá strákaslúður beint í æð þá er það greinilega Dalgas Avenue!!.
-Hrabbs&Viktor: Hér sit ég í stofunni ykkar. Ég er alveg að fara að sofa:) Matta vill ekki fara að sofa. En markmið mitt er að verða hástökkvari vikunnar og svo vil ég sjá viðskiptaplanið verða að veruleika!!! Takk fyrir að hýsa mig:)
Þótt þú gleymir Guði, þá geymir Guð ekki þér...

söng Megas fyrir mig um helgina. Það er eiginlega ekki fyrr en núna sem ég er virkilega byrjuð að meta hann Megas (eða Kindaprump eins og hann var kallaður á mínum bestu). Um helgina hef ég búið að samtals fjórum stöðum og hef haft það svo gott að ég er að hugsa um að gera þetta að lífstíl mínum, þeas. gerast flóttamaður, njáaaahh eða þeas vegbúi. Einning hefur helginni verið eytt mestmegnis lárétt. Misskiljið mig ekki: Ég er ekki að apa eftir John og Yoko. Nekt né karlmaður hafa ekki verið ríkjandi í mínu lífi lengi lengi (jú nekt einu sinni á dag þegar ég tek sturtuna)

Já ok. Ég var alkahóllaus þessa flóttamanns helgi mína og sökk mér í heim vidjós og fitandi fæðis. Og báða dagana fór ég á fætur rétt fyrir 18. í gær fékk flóttamaðurinn dýrindis nautasteik og hvítlauksbakaðar kartöflur með bernaise hjá Sillu og Guðnýu(en ég bjó þar í gær og í dag. Í dag var það kínverskt buffeij. Í kvöld átti ég heima hjá Hröbbu og Viktor (en hún var einmitt bæði í sjónvarpi og dagblaði um helgina. Og hann þekkir alla í Skítamóral og söng lagið "Þegar ykkur langar" sem var vinsælt árið ´98) já og hér var spilakvöld. Ég vann alltaf næstum því en svo kom handboltakonan knáa og rú-hústaði mér.
Ég mæli með afslöppun. Ég mæli með namedroppi.

Á morgun kl. 13 á staðartíma verður Yousseff Nasir hent út af Vesturgötu 6A með valdi (ef þess þarf) Svo verður skipt um skrá á öllum hurðum. Svo má þessu ævintýri alveg fara að ljúka svo ég geti hafið "nýja lífið" (í 56.skipti)

laugardagur, febrúar 26, 2005

Í gær var ég gísl (ekki það að fólk hafi misst sig í áhyggjum, sbr. kommentakerfið mitt). Núna er ég flóttamaður. Heimilinu mínu hefur verið breytt í íranskt mafíufélagsheimili, þar sem Youssef gengur um ber á ofan með hurðarhúninn af herbergishurðinni sinni svo ekki sé hægt að komast inn.

Við enduðum á að hleypa þeim inn og fórum upp á nágrannafund á næstu hæð. Allir í húsinu eru orðnir hræddir við þetta lið sem hefur hertekið húsið, fyrir utan standa 2-3 BMW-ar og maður veit ekkert hvað þeir geta tekið uppá að gera.
Við fengum semsagt fylgd inní íbúðina til að ná í það allra nauðsynlegasta og nú er bara óvissa hvernig málin standa þarna á Vestugötunni. Ég verð bara á ferðinni næstu daga, ég, fluffutaskan og tölvan mín.

Á afmælisdaginn hennar Maríu minnar var ég bæði gísl og flóttamaður.

föstudagur, febrúar 25, 2005

Á þessari stundum er ég að upplifa eitt það klikkaðasta sem ég hef lennt í á minni 25 ára ævi.

Smá forsaga:

Þegar ég kom heim frá Vín hitti ég nýjan meðleigjanda, hinn 19 ára íranska Yousseff. Hann heilsaði ekki heldur byrjaði strax að segja mér að það ætti að henda okkur út úr íbúðinni. Þar sem ég var lasin og mjög uppgefin tók ég þessu ekki mjög alvarlega og vildi skoða þetta betur. Svo kom hin stúlkan sem býr hérna heim og sagði mér að hann hafi haldið partý alla vikuna til 6.30 á morgnana, fólk að koma inní herbergið hennar til að leita að klósetti. Greyið stúlkan þurfti að flýja til Köben yfir helgina. Hann týndi strax lyklinum sínum þannig að hann hafði bara íbúðina opna í öllu sínum veldi. Svo er hann búin að brjótast inní bygginguna þannig að lásinn niðri er eitthvað skrýtinn og erfitt að læsa.
Þannig að eigandinn var búin að tala við hann og hóta honum að fara.

Opperation "rekumYouseffhéðanút!" var sett af stað um leið. Við treystum honum ekki og þannig vill maður ekki búa!
Í morgun var honum svo sagt að fara út þann 1.mars (þri nk). Þegar Hege meðleigjandi minn kom heim úr skólanum í dag var fartölvan hennar farin úr herberginu hennar!!! Tilviljun????

Við erum búnar að tala við lögguna en eins og vanalega gerir hún nú ekki mikið í málinu. Við viljum ekki vera hérna með honum og öllu hans gengi en á sama tíma getum við ekki skilið eftir íbúðina eftir og leyft þeim að stela meira frá okkur.

Svo áðan fóru þeir út og við læstum hurðinni inní íbúðina. Núna voru þeir að koma og liggja þeir á bjöllunni og hurðinni og símanum. Og við erum svo hræddar að hleypa þeim inn því þeir eru svo margir og bara að fara að halda partý!!! Og kannski eru þeir hættulegir.

Allavegana: þá er ég gísl í minni eigin íbúð akkúrat núna! Ég er svo stressuð að ég hlæ mjög skrýtnum hlátri.
Ji hvað þetta er klikkað. Ég hef aldrei upplifað annað eins!
Þar sem ég er nú svo glóbal þá hef ég tekið eftir allskonar smá-há-atriðum sem eru svo mismunandi á milli landa.
Td:
-þá er kveikjarinn/slökkvarinn alltaf utan á baðherbergjum hérna í Danmörku
-eitthvað mjög furðuleg tengi og innstungur, svona tíglalagað með þremur typpum/píkum (úpps ég sagði dónó!)
-í Hollandi er ruslið alltaf í stórri tunnu út í horni í eldhúsinu, ekki í skápnum undur vaskinum
-þar fer fólk heldur aldrei úr skónum innandyra (eitt af því FÁA sem ég fíla við það blessaða þjóðfélag)
-í austurríki og jú fleiri löndum má ekki sjúga uppí nefið, frekar að snýta sér bara á almanna

já þetta voru bara svona hugleiðingar í upphafi dags...

Ég var rétt í þessu líka að sækja um nokkrar vinnur á Íslandi fyrir sumarið og þar sem að ég er hrútur skil ég ekkert í því að fólk er ekki bara að svara mér STRAX! Kíki á póstinn með 30 sek millibili...
En ég er vongóð og hlakka til að bæta við reynslu mína. Langar núna að prófa að vinna við kvikmyndir, en svo kemur þetta bara í ljós. Allavega vil ég láta þetta e-ð tengjast náminu mínu.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Business Planner á daginn
Desperate Housewive á kvöldin
Burned out Djammqueen á föstudagskvöldið
Japanese Sushi chef á laugardagskvöldið

Inná milli rekandi meðleigjanda út úr versturgötuhöllinni.

ps. eyrnabólgan farin og ég sit um borð í fokker 735 eftir akkúrat 3 vikur...

meira var það ekki í bili.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Já hingað er ég mætt á ný eftir smá fjarveru. En ég skellti mér í smá ferð sem endaði eiginlega sem smá interrail. Æ já ég er svo global, en núna er ég local. Komin heim á Vesturgötuna í Árósinni. Veik, með eyrnabólgu. Sem mér finnst samt smá smart því ég hef ekki verið með slíka bólgu í 17 ár.

Ferðin ó ferðin! Hvar á ég að byrja? Þetta var svo skemmtilegt allt saman. Hver dagur var einstakt ævintýri. Sjálfstætt framhald síðast liðins dag. Harpa, Ragnheiður og Erna ýr. Og allir hinir meðþátttakendur. Takk fyrir mig. Takk fyrir mig!

Mottó ferðarinnar var að kynnast eins mikið af ókunnugu fólki. Enda auðgar það svo sjóndeildarhringinn. Regla ferðarinnar voru orðin: JÁ OG. Miklu skemmtilegra en að segja NEI EN. Enda komum við okkur í hressandi ævintýri með því að segja alltaf bara JÁ! Við hefðum td ekki farið á PIANO MAN staðinn hérna í árósum ef við hefðum sagt NEI. Þá hefðum við ekki kynnst söguhetjunni úr laginu hans Billys. Þá hefðum við ekki kynnst íslensku lögfræðinemunum í lestinni, né keypt upp lagerinn af bjór í sömu lest. Þá hefðum við ekki eytt aðeins meiri pening en við eigum í Hennes og fleiri búðum.

Orðið JÁ býður opnum stúlkum uppá einstök ævintýri. Ég held áfram:
Í Vín hefðum við ekki séð hallir, kirkjur, yndislegan markað, garða, fallegu litlu göturnar og húsin, né farið í allar gerðir af transport service ef við hefðum setið með fýlusvip og sagt NEI. Við hefðum heldur ekki drukkið hátt yfir 30 kokteila, borðað góðan mat, farið í Casino, lært að búa til Vínarsnitzel (step by step) og pantað Sachertertu á óaðfinnanlegri Þýsku.

Talandi um það. Mikið óskaplega er ég góð í tungumálum (já ok nema dönsku) Því eftir að hafa sagt JÁ við að skella mér til Slóvakíu (nánar tiltekið Bratislava) og drukkið gæða-kokteila á 120 kr í 8 tíma, var hægt að finna mig og mína inná slovenskum karókíbar....syngjandi á slvóvenskunni. Alveg eins og infædd. Ég er alveg ótrúleg.
Bratislava var yndilseg. Í miðjunni er gamli bærinn og úr honum sér maður upplýstan kastala á hæð. Í kringum gamla eru bara kommunstiablokkir. Inní gamla eru samt hip og cool kokteil barir með fallegu kvenfólki, ljótum karmönnum. Þetta var öfugt í Vín.

Í VÍn voru samt allir í sleik. Allstaðar. Allskonar fólk. Sleikur á almanna er greinilega heitur í höfuðborg Austur Evrópu.
Hins vegar fór ég ekki í sleik. Ekki nema bara við kokteilinn minn og jú kannski smá hana Hörpu mína. En það var bara til að fæla frá æsta karlmenn sem störðu og sýndu á sér hinn allra heilagasta ef út í það fór. Já bara svona á miðju dansgólfi.

Hér sit ég, miklu fátækari fjárhagslega, mun ríkari minninga, með aukakíló og bjúg eftir mikla drykkju og át. En samt sem áður alltaf og ávallt GLÓBAL!

Takk fyrir söknuðinn þið þarna sem söknuðu mín. Ditto. Og Harpa ég sakna þín. Þótt við fórum að rífast;)

fimmtudagur, febrúar 10, 2005


Þetta er hann öddi. Öddi Páls. Ödda finnst afskaplega skemmtilegt að kommenta. Eins og þeir sem fylgjast með hafa kannski séð. Öddi vill ekki ís hann vill plómu. Öddi er hluti af fjölskyld.minni. Öddi er stoltari móðir en mæðurnar sjálfar. Öddi á systur sem er ekki fokking alkahólismi heldur djammdrusla. Öddi þekkir indverjann Bindair Dundait. Öddi er á föstu. Öddi er bróðir minn. Hálfbróðir minn...

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Þegar ég lagðist á koddann minn í nótt, ponsu tipsy, datt mér e-ð alveg rosalega flott í hug til að blogga um í dag. Skellti alveg uppúr þarna þar sem ég lá með ómandi tónlist úr iPodinum mínum. Jáh alltaf partý í mínum haus, "mit liv som músikvidjó" heitir ævisagan mín sem kemur út fyrir næstu jól. En ég er auðvitað búin að gleyma hvað ég vildi blogga um í nótt, hefði átt að drífa mig í því...

Til að koma því enn betur til skila hversu einkennilegur þessi elskulegi skóli minn er að þá langar mig að deila með ykkur að þegar ég mætti í skólann var mér tilkynnt að fara yfir á Chokoladefabrikken, en það er nýopnaður klúbbur hérna í Árós.
Ég þangað og áður en ég vissi af var ég komin á dansgólfið að dilla rassinum við rosa flotta músik. Þetta er hluti af brainstorming aðferð. En jáh! Klukkan er 10 á miðvikudagsmorgni!!! Me is clubbing all week long;)

Dagskráin í nánustu framtíð:
saumaklúbbur í kvöld
harpa og ragnheiður koma á morgun

...ég þarf að gubba ég er svo spennt. Mit liv er så meget godt!

mánudagur, febrúar 07, 2005

Þegar maður hefur frá OF miklu að segja eru meiri líkur á því að maður (eða kona fyrir feminismann) fresti því að blogga.
Síðastliðnu dagar eru einfaldlega of innihaldsríkir að ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvernig ég á að koma þessu frá mér. Á ég að taka listann á þetta? já já....

Síðastliðnu dagar innihalda:
-titrandi varir mínar vegna munnræpu á café druidenfoss...ég og matta að hittast eftir la-hangan aðskilnað!
-team 11 stelpumatarboð, rautt og hvítt á boðstólnum og lot of confessions! og auðvitað klívitz myndataka!
-mig á brjóstarhaldaranum með "the future of scandinavia" krotað á kroppinn,kubalíbre í annari hönd, á brimbretti að surfa í sandinum í skólanum (daginn fyrir strandarpartýið)
-mig vaknandi í skólastofunni á föstudagsmorgun við það að sænskur prófessor gekk inn til að byrja heimspeki fyrirlestur
-mig gangandi rösklega út úr kennslustofunni....með reality check!!
-mig í náttfötum kl.18 á föstudegi að jafna mig eftir fimmtudagsdjammið, komin með bjór í aðra og saltsöng í hina
-mig og möttu með bjór að skrá okkur á einkamál
-strandarpartý innandyra í skólanum, fljótandi kokteilar og flestir berfættir og ALLIR léttklæddir og smart...og 17 tonn af sandi
-mig að vakna á laugardaginn með hausverk og gubbutilfinningu....á leiðinni á Þorrablót í Köben! nú var að duga eða drepast..
-lestarferð til Petru og fjölsk. í Köben
-knús með Petru
-Þorrablót íslendinga....sem er geðveiki en gaman að syngja íslensk lög.
-mig og Petru að hakka í okkur afganga á afgangsborðinu. mmmm harðfiskur með rófustöppu....frábær blanda!
-slagsmál a la Njálsbúð og ballið búið!

Já og hér er ég á fyrirlestri um Creative Business Design. Best að fara að fylgjast með...

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Á svona degi eins og í dag geng ég um með lagið "vorið er komið og grundirnar gróa" en það er nú einmitt lagið sem rúllaði mér inn Rokklingana á sínum tíma. Ég tók alveg Hallbjargartaktana og allt.
Ég var miklu meiri töffari þegar ég var 11 ára. Hékk með aðalhjólabrettastrákunum í bænum, sjálf var ég á bleikum oldschool hjólaskautum. Rúllaði oftar en einu sinni niður Bankastrætið án þess að líta til hliðar þegar ég flaug yfir Lækjargötuna. Greinilegt að það er fyrirfram ákveðið hvenær maður deyr, því það munaði oft svo litlu þarna á Lækjargötunni.
Þetta sumar keypti ég mér líka appelsínugult MuddyFox fjallahjól. Gæinn sem átti hjólabúðina Örninn lét mig fá það í byrjun sumars, hann fékk að drekka frítt hjá mömmu á 22 (sem stofnaði einmitt 22 fyrir þá sem ekki vita) og ég borgaði mömmu vikulega pening sem ég fékk fyrir að passa. Góður díll!

Núna tæpum 15 árum seinna er ég hérna í Árósum, skrópaði í skólanum í dag (sem er nú töff) Búin að eyða miklum tíma í að hugsa hvernig mögulega ég get bætt nokkrum klukkutímum við sólarhringinn. Ég sé ekki fram á að komast yfir allt sem mig langar til að gera næstu vikur. Sit með stapla af góðum skólabókum, já góðum og áhugaverðum skólabókum!, fyirir framan mig, jógastundaskráin er merkt í favorits í tölvunni minni, sem og nýjar uppskriftir af nýjalífs-matarræðinu. En hinn hrúgast mail og símtöl um matarboð hér og þar, stúdígrúppa (sem er nauðsynlegt fyrir mig því ég skil ekki allt í skólos) djamm báða dagana næstu margar helgar, gestir eru að koma og fara og áður en ég veit af er ég sest uppí FOKKER 735 hjá Icelandair þann 17.mars.

Er e-r möguleiki á að bæta tímum við sólarhringinn??? Þar sem ég er nú að læra fruuuuumkvöðlasemi ætla ég að skoða þetta nánar. En núna fyrst...klippa táneglurnar og svo útí sólina!

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Ég er komin með leið á orðinu "skvís" og hef hér með ákveðið að hætta að nota það hvort sem það er í töluðu máli eða skriftum mínum hér á bloggi, msn og sms, jú eða email.

Finnst að aðrir ættu að taka mig til fyrirmyndar, þá sérstaklega þeir sem mæla og rita orðin: "jarí jarí jarí og eníhús...."

Nú er ég flutt og mikið er ég ánægð. Þetta er risastór íbúð í fallegu gömlu húsi niðrí bæ. 3 húsum frá Hennes og ská á móti BaugsMagasin du Nord. Í nótt svaf ég í prinsessurúmi með dúnsængina sem mamma gaf mér í 23 ára afmælisgjöf, en hún er búin að vera í Hollandi í 9 mánuði. Eyddi nánast öllu kvöldinu í gær hjá Steven á næstu hæð að horfa á Fraiser á meðan hann dúllaðist í tölvunni minni. Þetta kallar maður góða nágranna!

Já það er gaman að vera til.

Á föstudaginn er BeachPartý í skólanum. Búið að panta 17 tonn af sandi og pálmatré. Vandamálið er í hverju ég á að klæðast?
Á laugardaginn fer ég til Köben að hitta Petru og við ætlum á þOrrablót...Hressandi!

Hvað varð um átakið "eftir12djömmumjólinætlaégaðróastídjamminu"????
í dag kemur Matta, þá munum við smjatta

...ó hvað ég hlakka til!!